Fimmtudagur, 29. mars 2007
Næstum tilbúin
Næstum tilbúin... Þetta minnir mig nú á söguna um Báru og Benna þar sem Bára var á leið í heimsókn til ömmu sinnar en gleymdi alltaf einhverju að fara í. Hún átti sem sagt að klæða sig sjálf og hélt alltaf að hún væri reddí þangað til mamma hennar sagði: "Nei Bára mín, þú átt eftir að fara í.... " og svo opnaði maður svona flipa neðst á blaðsíðunni og þar var mynd: "sokkana þína" Komst að því á efri árum að amma hafði gagnrýnt þessa bók harðlega (hún er í sömu seríu og Bláa kannan og þessi þarna um strákinn, hafragrautinn og tunglið) því að í sömu bók var Benni að fara út að leika sér í rigningunni. Hann þurfti enga mömmu til að segja sér til því hann fattaði alltaf sjálfur hverju hann var að gleyma. Af því að Benni var svo klár. Það getur vel verið að Benni hafi kannski bara verið eldri, eða Bára eitthvað seinþroska. Ég hef ekki séð þessa bók eftir að ég komst á fullorðinsár en ég verð eiginlega að fara að grafa hana upp.
Jæja nú er Bartal kominn að sækja mig í páskabjórinn. Ég er sko búin að pakka og allt og þá maður alveg fá sér smá bjór.
Skál!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 28. mars 2007
Undirbúningur fyrir heimferð
Smátt og smátt er verkefnum sem þarf að ljúka fyrir heimferð að verða lokið. Ég hef afkastað eftirfarandi: Farið með buxur í hreinsun, keypt naglalakk, keypt nærbuxur, þvegið allt sem á að fara með, tekið til sumt sem á að fara með, keypt í páskamatinn, planað næstu helgi út í ystu æsar, undirbúið mig andlega fyrir ysinn og þysinn í stórborginni.
Þetta er eftir: Klára að finna allt dótið til sem ég ætla að taka með og koma því í töskur, selja miðann minn á Chris Christofferson sem ég ætlaði á 4.apríl, skila stólum og pottum sem ég er búin að vera með í láni síðan í byrjun nóvember, smakka páskabjórinn.
Þannig að það er hellingur búinn og bara smá eftir. Græja rest á morgun... hlakka samt mest til að smakka páskabjórinn.
Jæja verð að vinna aðeins... er bara að reyna að standa mig hérna!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 27. mars 2007
Einnar nætur gaman
Sofnaði hjá knéfiðlu en vaknaði hjá kontrabassa.
Úff hver hefur ekki lent í því???
(stolið úr Myndin af heiminum)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 25. mars 2007
Batnandi konu er best að lifa
Jæja tvær bloggfærslur á einum degi.... Usssss.... Reyndar skrifaðar eftir miðnætti í nótt og svo rétt fyrir miðnætti í kvöld.... en lúkkar geðveikt vel út á við. Og er maður ekki alltaf að reyna að lúkka vel út á við. Ég veit ég geri það alla vega.
Hef reyndar ekkert að segja. Ég svaf allt of lengi í dag og þar að auki var tekinn af mér einn klukkutími þar sem verið var að breyta klukkunni hérna. Já og svo er ég með svo mikla hellu í eyrunum að ég heyri ekki neitt. Sem skiptir ekki öllu máli þar sem ég þarf svo sem ekki að heyra neitt mikið í dag. Bara að ég heyri þegar þvottavélin er búin. Þetta verður alla vega löng nótt þar sem ég mun örugglega ekki sofna fyrr en seint og um síðir. Þá er trikkið að fara ekkert upp í rúm fyrr en maður er orðinn þreyttur þannig að ég hugsa að ég muni bara vera dugleg að lesa og hugsa um allt sem mig langar að kaupa mér. Mig hefur gripið eitthvert kaupæði... hugsa ekki um annað en veraldlega hluti sem mig langar að eignast. En ég hef nú alveg fengið svona æði áður og ég veit að það mun ganga yfir. Svo kostar nú ekkert að láta sig dreyma. Það hættulega við það samt er að þá fer ég að lifa í framtíðinni í staðinn fyrir að einbeita mér að nútíðinni. Enda er framtíðin stundum auðveldari en nútíðin. Get alveg farið langt fram úr sjálfri mér í framtíðarpælingum í staðinn fyrir að taka á málum líðandi stundar. En það er víst fyrsta skrefið að gera sér grein fyrir vandanum til að geta tæklað hann. Enda eru þetta yfirleitt bara tímabil sem líða hjá.
Það er farið að bætast við páskaplanið. Fyrsta helgin er orðin uppbókuð en þó er pláss fyrir vöfflukaffi á sunnudeginum ef einhver vill taka það að sér. Annars er ég ekkert að missa mig í planleggingum fyrir þessa ferð. Ætla nú svona meira að leyfa þessu að ráðast. Vil þó að fólk hringi í mig ef það er að fara að halda partý eða er boðið í eitt slíkt þar sem ég ætla að vera allsvakalega dugleg í djamminu, svona eins og heilsan leyfir alla vega.
Nenni annars ómögulega í vinnuna á morgun.
PS. Er loksins búin að setja inn myndir af árshátíðinni á flickr.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 25. mars 2007
x-factor
Pabbi hringdi í mig í kvöld ferlega fúll. Hann var nú aðallega fúll yfir því sem honum fannst heldur ódýr redding á bloggleysi sem hefur hrjáð mig undanfarnar vikur. Hann sagðist alveg vita það að mér fyndist gott að sofa og allt það sem kom fram á myndunum. Hann heimtaði bloggfærslu og þar sem ég er búin að vera gróin við sófann meira og minna alla síðustu viku sökum veikinda hef ég nú ekki frá miklu að segja. Það hefur vakið furðu mína hvað það getur verið margt óáhugavert í sjónvarpinu þrátt fyrir tugi stöðva. En á flakki mínu um sjónvarpsheima í kvöld sá ég allt í einu unga ljóshærða stelpu að syngja. Ég staldraði við því það var greinilegt að ekki var um fagmann að ræða. Eftir nokkurra sekúndna áhorf sá ég allt í einu nafnið Guðbjörg sem mér fannt nú hljóma mjög íslenskt. Þegar hún var búin var Halla allt í einu mætt á skjáinn ásamt Palla, Ellý og Einari Bárða. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Var að velta fyrir mér hvort einhverju hefði slegið saman í sjónvarpinu eða þá að ég hefði bara sofnað og væri að dreyma að ég væri að horfa á x-factor. Ég fattaði svo reyndar að trúlega hefði færeyska sjónvarpið keypt þættina til að sýna landanum Jógvan þenja raddböndin. Ég veit að ég er mjög mikið á eftir að tjá mig um þessa þætti en ég hef blessunarlega ekki getað horft á þetta fyrr. Ég var með bjánahroll allan tímann sem á þessum hryllingi stóð. Ég veit ekki hvað mér fannst verst... jú ég veit það... Ellý. Djók!! Ég fylltist alla vega ekki neinu þjóðarstolti þrátt fyrir að vera í "útlöndum". Ekki frekar en þegar Eiríkur mun stíga á stokk í Finnlandi. En það er efni í aðra bloggfærslu. Ég er alla vega bara fegin að ég mun verða í Íslandi næst þegar þessi þáttur verður sýndur hér þannig að ég mun ekki villast inn á þetta aftur.
Til að fyrirbyggja allan misskilning elska ég samt svona þætti... kvíði t.d. mjög að missa af American Idol á meðan ég verð heima í páskafríi. Og ég verð að fara að finna mér eitthvað að gera á föstudagskvöldum því að Dancing on Ice var að klárast í gær. Og já, ég er að verða sjónvarpssjúklingur... Er búin að horfa of mikið á E-entertainment þar sem ég stend sjálfa mig að því að vera farin að hugsa um bleikjun á tönnum, fitusog og brjóstaminnkun. Og svo langar mig ógeðslega í milljón króna demantshálsmen og svona kjól eins og Drew Barrymore var í á Golden Globe og hár eins og Eva Longoria.
En já það styttist í að ég komi til landsins og þá lagast ég aftur... lofa
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Laugardagur, 24. mars 2007
Ég í myndum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 20. febrúar 2007
Mammslan mín komin
Jæja nú er annar helmingurinn af mér staddur hjá mér. Mamma mín kom í gær að heimsækja einkadótturina. Ég fór út á völl að sækja hana og tvo vinnufélaga í gærkvöldi.
Við erum búnar að hafa það voðalega gott við mæðgurnar. Vöknuðum bara í rólegheitunum í morgun, bökuðum rúnstykki og sátum og spjölluðum og drukkum kaffi fram yfir hádegi. Helltum okkur svo út í rokið og rigninguna. Kíktum á skrifstofuna og keyptum smá túristadót, völdum flottara dótið af tvennu mögulegu Fórum svo í verslunarmiðstöðina og ég lét mömmu kaupa pæjuföt. Svo elduðum við lasagne (Dem Áslaug... þú misstir af því aftur!!!) og drukkum rauðvín með. Ís og marssósa setti svo punktinn yfir i-ið. Bartal og Katrin dóttir hans komu í mat og við höfðum það bara reglulega huggulegt. Þegar börnin voru farin tók svo alvaran við og húsfreyjan gerði æris koffí af sinni einskæru snilld.
Nú erum við að fara að dansa fugladansinn í stofunni.... bíbíbí og dirrindí....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 15. febrúar 2007
Úff
Andvarp, stuna, úff, púff!
Ekkert meira um það að segja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 12. febrúar 2007
Ferðasaga Siffu ... framhald
Jæja það er nú víst löngu kominn tími á blogg. Ég ætti að vera að vinna en nenni því engan veginn og þá er þetta tilvalin afsökun. Ég mun halda áfram með ferðasögu Sigfríðar og lofa því að núna er ég að skrifa alveg bláedrú en ekki undir áhrifum áfengis sbr. síðustu færslu.
Við fórum sem sagt í þessa margumtöluðu göngu á laugardeginum. Vöknuðum hálfátta að mig minnir og græjuðum okkur, hituðum kakó, settum í bakpokana og röltum svo á rútubílastöðina. Við náðum langferðabílnum og báðum langferðabílsökukonuna að segja okkur hvenær við ættum að fara út. Stoppistöð: Hvalvík. Þegar þangað var komið vorum við engu nær um í hvaða átt skyldi halda, þrátt fyrir leiðbeiningar sem við höfðum undir höndum. Við ákváðum að labba inn í bæinn til að athuga hvort við yrðum ekki einhvers vísari. Svo reyndist ekki vera. Við gengum fram hjá húsi þar sem fólk sat inni að drekka laugardagskaffið. Við ákváðum að banka upp á og athuga hvort þau gætu komið okkur á sporið. Enginn kom til dyranna. Við gengum því að glugganum og vöktum athygli á okkur með handapati og ýmsum andlitsgeiflum. Þetta ágæta fólk horfði bara á okkur en sneri sér svo bara aftur að kaffinu sínu. Hrrrrmmmppppffff!! Í sömu andrá sáum við mann koma út úr næsta húsi. Við hlupum til hans og hann benti á einhverja rafmagnslínu sem við gætum fylgt. Við ættum þá að koma að fyrstu vörðunni. Við lögðum á brattann fullar eldmóðs og stefndum á rafmagnslínurnar. Þegar þangað var komið blöstu við fleiri rafmagnslínur og meiri bratti. Það fannst okkur undarlegt miðað við lýsingar á leiðinni sem lofuðu tæplega 400 m hækkun og okkur fannst við alveg komnar nógu hátt. Við héldum nú samt áfram staðráðnar í því að finna þennan stíg sem var búið að segja okkur að væri þarna uppi einhvers staðar. Við gengum og gengum í brjáluðu roki og rigningu sem breyttist svo í títuprjónarigningu sem stakk okkur í andlitið. Við settumst niður og fengum okkur að borða og íhuguðum næstu skref. Eftir miklar bollaleggingar þótti okkur vænlegast að snúa bara við þar sem veðrið var orðið mjög leiðinlegt og við ekki vissar hvort við værum á réttri leið. Við vildum nú ekki þurfa að vera heimsku útlendingarnir sem þarf að sækja á þyrlu þar sem þeir vita ekkert hvert þeir eru að fara og týnast einhvers staðar uppi á fjöllum. Það var frekar snúið að komast niður. Við vorum að ganga í rennblautu grasi og mýri og hallinn var sums staðar frekar mikill. Siffa var nú betur búin til fótanna en ég þannig að ég held að hún hafi nú bara flogið þrisvar á hausinn. Ég datt aftur á móti svona 10 sinnum. Ég gafst á endanum upp og renndi mér á rassinum meginpartinn af leiðinni. Það tók miklu styttri tíma og var ógisslega skemmtilegt. Ég hringdi svo í Bartal og hann kom og sótti okkur. Þessi svaðilför tók okkur ca. 4 klukkutíma og komum við heim, þreyttar en sælar eftir þessa miklu för.
Ég er nú svo mikill aumingi að ég varð að leggja mig þegar heim var komið en Bartal og Siffa héldu upp heiðri Mýrisnípuvegs með því að vera vakandi um hábjartan dag. Siffa vakti mig svo um fimmleytið og þá fórum við fljótlega að elda og græja okkur í diskógallann fyrir kvöldið. Við elduðum æðislega nautasteik og drukkum rauðvín með. Bartal var eitthvað hálf aumur eftir kvöldið áður þannig að það var nú lítið gaman af honum. Við Siffa héldum uppi heiðri Mýrisnípuvegar þetta kvöldið með þónokkri drykkju og miklu spjalli. Héldum svo á Manhattan að hlusta á tvo gaura spila og spjalla við nokkra Færeyinga. Héldum svo heim þegar við vorum búnar að fá nóg.
Sunnudagurinn fór svo í sjónvarpsgláp og almennt aðgerðarleysi. Á mánudaginn fór ég í vinnu en Siffa fór í síðasta göngutúrinn um Þórshöfn. Ég skutlaði henni svo út á völl um eftirmiðdaginn og þá var ég bara orðin aaaalllleeeeiiiiinnnnn í kotinu. Og ég er búin að vera ein síðan þar sem Bartal var með dóttur sína þessa vikuna en ég endurheimti hann nú á morgun.
Ein skemmtileg saga svona í lokin: Ég var heima eitt kvöldið núna í vikunni og var að tala við Siffu á Skype-inu. Allt í einu heyri ég að tekið er í hurðarhúninn en ég er farin að læsa alltaf hurðinni þar sem mér finnst frekar óþægilegt að hafa fólk skyndilega inni á miðju stofugólfi. Ég bað Siffu að bíða aðeins á meðan ég tékkaði á þessu. Ég opna hurðina og kíki út og þá kallar stelpa sem var komin í næsta hús hvort ég vilji kaupa lottó!! Ég sagði bara nei takk og lokaði aftur. Það sem mér finnst fyndnast var að hún bankaði aldrei, tók bara í hurðarhúninn og þar sem það var læst hefur hún ákveðið að enginn væri heima. Skrýtið fólk þessir Færeyingar...
Henti inn nokkrum myndum á flickr-síðuna mína.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 3. febrúar 2007
Regnbuxnadagur
Í dag komst ég í vinnuna án þess að Siffa vaknaði. Hún hrökk upp um níuleytið og kíkti undir sængina mína til að sannfæra sig um að ég væri örugglega farin í vinnuna. Ég var nú frekar löt í vinnunni verð ég að viðurkenna en Siffa kom kl. 12.30 og leysti mig úr prísundinni. Við fórum og fengum okkur að borða en svo sannfærði hún mig um það að ég gæti ekki farið í göngu án þess að eiga regnbuxur. Ég gat nú alveg tekið undir það með henni þar sem vætan gerir oft vart við sig þegar síst skyldi hér í þessu eyjalandi. Við fórum því í Skipafélagið. Þar var frekar krúttleg kona sem bauð okkur aðstoð. Við sögðumst þurfa regnbuxur. Ódýrar? spurði hún. Nei ekkert frekar svöruðum við í kór. Hún sýndi okkur þá Hellytex buxur sem pössuðu ágætlega. Við ákváðum þó að það sakaði ekki að prófa númeri minna. Konan reyndist samt upptekin við annað og benti okkur á að gramsa bara í rúmfatalagersskúffunni sem var þokkalega skipulögð. Mátaði aðrar buxur sem virtust jafngóðar Hellybuxunum. Spurðum um mun og varð Helly fyrir valinu. Ég á nýjar andandi regnbuxur!
Fórum svo í Intrum, Imerco, Matas, Miklagarð, heim, Rúsuna og heim. Fórum svo út að borða á Merlot og vorum bara tvær allt kvöldið fyrir utan kokkinn og þjóninn og svo vin þjónsins sem kom í heimsókn í smástund. Matur mjög góður, rauðvín gott, kaffi gott, líkjör góður og flott veggfóður.
Manhattan heimsóttum við svo áður en lagt var af stað heim á leið. Við hlustuðum á tvo skemmtilega gaura og spjölluðum aðeins við misskemmtilegt fólk. Kona keyrði okkur heim og sagði sextíu en aðrir höfðu sagt sextíu og fimm í dag.
Heima gerðum við klaka fyrir annað kvöld, smurðum nesti fyrir gönguna miklu á morgun og núna erum við að fara að glöggva okkur á leiðinni en svo verður bara farið í rúmið eftir nákvæmlega 19 mín. Góða nótt :O)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)