Ferðasaga Siffu ... framhald

Jæja það er nú víst löngu kominn tími á blogg. Ég ætti að vera að vinna en nenni því engan veginn og þá er þetta tilvalin afsökun. Ég mun halda áfram með ferðasögu Sigfríðar og lofa því að núna er ég að skrifa alveg bláedrú en ekki undir áhrifum áfengis sbr. síðustu færslu.

Við fórum sem sagt í þessa margumtöluðu göngu á laugardeginum. Vöknuðum hálfátta að mig minnir og græjuðum okkur, hituðum kakó, settum í bakpokana og röltum svo á rútubílastöðina. Við náðum langferðabílnum og báðum langferðabílsökukonuna að segja okkur hvenær við ættum að fara út. Stoppistöð: Hvalvík. Þegar þangað var komið vorum við engu nær um í hvaða átt skyldi halda, þrátt fyrir leiðbeiningar sem við höfðum undir höndum. Við ákváðum að labba inn í bæinn til að athuga hvort við yrðum ekki einhvers vísari. Svo reyndist ekki vera. Við gengum fram hjá húsi þar sem fólk sat inni að drekka laugardagskaffið. Við ákváðum að banka upp á og athuga hvort þau gætu komið okkur á sporið. Enginn kom til dyranna. Við gengum því að glugganum og vöktum athygli á okkur með handapati og ýmsum andlitsgeiflum. Þetta ágæta fólk horfði bara á okkur en sneri sér svo bara aftur að kaffinu sínu. Hrrrrmmmppppffff!! Í sömu andrá sáum við mann koma út úr næsta húsi. Við hlupum til hans og hann benti á einhverja rafmagnslínu sem við gætum fylgt. Við ættum þá að koma að fyrstu vörðunni. Við lögðum á brattann fullar eldmóðs og stefndum á rafmagnslínurnar. Þegar þangað var komið blöstu við fleiri rafmagnslínur og meiri bratti. Það fannst okkur undarlegt miðað við lýsingar á leiðinni sem lofuðu tæplega 400 m hækkun og okkur fannst við alveg komnar nógu hátt. Við héldum nú samt áfram staðráðnar í því að finna þennan stíg sem var búið að segja okkur að væri þarna uppi einhvers staðar. Við gengum og gengum í brjáluðu roki og rigningu sem breyttist svo í títuprjónarigningu sem stakk okkur í andlitið. Við settumst niður og fengum okkur að borða og íhuguðum næstu skref. Eftir miklar bollaleggingar þótti okkur vænlegast að snúa bara við þar sem veðrið var orðið mjög leiðinlegt og við ekki vissar hvort við værum á réttri leið. Við vildum nú ekki þurfa að vera heimsku útlendingarnir sem þarf að sækja á þyrlu þar sem þeir vita ekkert hvert þeir eru að fara og týnast einhvers staðar uppi á fjöllum. Það var frekar snúið að komast niður. Við vorum að ganga í rennblautu grasi og mýri og hallinn var sums staðar frekar mikill. Siffa var nú betur búin til fótanna en ég þannig að ég held að hún hafi nú bara flogið þrisvar á hausinn. Ég datt aftur á móti svona 10 sinnum. Ég gafst á endanum upp og renndi mér á rassinum meginpartinn af leiðinni. Það tók miklu styttri tíma og var ógisslega skemmtilegt. Ég hringdi svo í Bartal og hann kom og sótti okkur. Þessi svaðilför tók okkur ca. 4 klukkutíma og komum við heim, þreyttar en sælar eftir þessa miklu för. 

Ég er nú svo mikill aumingi að ég varð að leggja mig þegar heim var komið en Bartal og Siffa héldu upp heiðri Mýrisnípuvegs með því að vera vakandi um hábjartan dag. Siffa vakti mig svo um fimmleytið og þá fórum við fljótlega að elda og græja okkur í diskógallann fyrir kvöldið. Við elduðum æðislega nautasteik og drukkum rauðvín með. Bartal var eitthvað hálf aumur eftir kvöldið áður þannig að það var nú lítið gaman af honum. Við Siffa héldum uppi heiðri Mýrisnípuvegar þetta kvöldið með þónokkri drykkju og miklu spjalli. Héldum svo á Manhattan að hlusta á tvo gaura spila og spjalla við nokkra Færeyinga. Héldum svo heim þegar við vorum búnar að fá nóg.

Sunnudagurinn fór svo í sjónvarpsgláp og almennt aðgerðarleysi. Á mánudaginn fór ég í vinnu en Siffa fór í síðasta göngutúrinn um Þórshöfn. Ég skutlaði henni svo út á völl um eftirmiðdaginn og þá var ég bara orðin aaaalllleeeeiiiiinnnnn í kotinu. Og ég er búin að vera ein síðan þar sem Bartal var með dóttur sína þessa vikuna en ég endurheimti hann nú á morgun.

Ein skemmtileg saga svona í lokin: Ég var heima eitt kvöldið núna í vikunni og var að tala við Siffu á Skype-inu. Allt í einu heyri ég að tekið er í hurðarhúninn en ég er farin að læsa alltaf hurðinni þar sem mér finnst frekar óþægilegt að hafa fólk skyndilega inni á miðju stofugólfi. Ég bað Siffu að bíða aðeins á meðan ég tékkaði á þessu. Ég opna hurðina og kíki út og þá kallar stelpa sem var komin í næsta hús hvort ég vilji kaupa lottó!! Ég sagði bara nei takk og lokaði aftur. Það sem mér finnst fyndnast var að hún bankaði aldrei, tók bara í hurðarhúninn og þar sem það var læst hefur hún ákveðið að enginn væri heima. Skrýtið fólk þessir Færeyingar... 

Henti inn nokkrum myndum á flickr-síðuna mína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

haha... minnir mann á Sigga James þegar hann labbaði bara alltaf inn í íbúðirnar í Engjaselinu á sokkabuxunum, var ekkert að banka eða neitt

kjartan (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 14:45

2 identicon

Finnst e-n veginn alveg vanta að gert sé grín að því að ganga í fjóra tíma án þess að finna leiðina. Hvernig fólk er það aftur sem ekki má gera grín að?

Leiðindapúki (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 15:16

3 Smámynd: Hugrún

Held nú að Siggi hafi ekki verið einn um að sleppa því að banka   

Má ekki gera grín að leiðinlegu fólki? Eða fólki sem gerir grín að öðrum? Eða fötluðum? 

Hugrún , 12.2.2007 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband