Sunnudagur, 10. júní 2007
Tímavél
Þar sem ég er nú búin að vera svo léleg í blogginu verð ég að biðja um smá skilning á tímaflakki. Það er nú einu sinni þannig að það er skemmtilegra að skrifa um það sem er manni í fersku minni. Eða það er ágætt að skrifa um lífsreynsluna til að athuga hvað maður man mikið
Ég var sem sagt boðin í sextugsafmæli mömmu Bartals á föstudaginn. Við áttum að vera mætt kl.16.30 til að taka langferðabíl. Ég var mætt með afmælisbarninu, mömmu hennar, Bartal og dóttur hans um klukkan fjögur, bara ef einhver yrði nú tímanlega í því. Það gerðist reyndar ekki þar sem Færeyingar eru ekki stundvísasta fólk í heimi. Partýið hófst á ákavíti og bjór í rútunni. Við keyrðum um í ca. einn og hálfan tíma þar sem veðrið var æðislegt, sól og geggjað útsýni. Við komumst svo loks á áfangastað eftir mikinn söng og fjör á meðan á akstrinum stóð.
Afmælið var haldið í gömlu pakkhúsi við ströndina og húsið og umhverfið voru í einu orði sagt frábær. Maturinn var æðislegur og nóg af hvítvíni og rauðvíni. Ég ákvað á einhverjum tímapunkti að það kæmi í minn hlut að sjá um að ekkert yrði eftir af víninu. Og eins og allt sem ég ákveð að taka mér fyrir hendur stóð ég mig mjög vel í þessu sjálfskipaða verkefni mínu. Ég skemmti mér alla vega konunglega, talaði færeysku eins og innfædd og söng lög sem ég kunni ekki. Söng líka nokkur velvalin íslensk lög en ég held ég hafi alveg sleppt dansinum... nei... reyndar ekki, dansaði vikivaka heillengi. Það er lúmskt gaman og ótrúlegt hvað þessi einföldu spor geta vafist fyrir manni! Mér fannst samt krúttlegast þegar tvær sjö ára skvísur slógust í hópinn og kunnu þetta allt saman upp á hár. Þegar líða tók á kvöldið fann ég einmitt þessar sjö ára í rúmi sem hafði verið komið fyrir hjá fatahenginu. Ég ákvað að fara að þeirra fordæmi og leggja mig hjá þeim. Bartal vakti mig svo þegar rútan var komin og tími var kominn til að halda heim á leið. Ég komst út í rútu og ákvað að halda bara áfram að sofa þar. Þegar við vorum svo komin til Þórshafnar var minns orðinn ýkt hress aftur og tók boði um að kíkja aðeins í bæinn, reyndar eftir að sú ágæta kona var búin að sannfæra mig um að liti ekkert hræðilega út. Það var nú ekki mikið fjör í bænum og við ákváðum að kíkja á Manhattan. Þeir sem hafa komið til Þórshafnar vita kannski að það er stórhættuleg brekka sem liggur fyrst niður og svo aftur upp að Manhattan. Ég á ofurhælunum mínum var að labba niður þessa háskabrekku þegar ég dett allt í einu, mjög dömulega samt, beint á hnéð. Ég var fljót að standa upp til að valda mér og fylgdarkonu minni ekki miklum vandræðaheitum. Fann aðeins til í hnénu en lét það ekki á mig fá og hélt ferðinni áfram á Manhattan. Hugsaði á leiðinni að fyrst ég væri að detta á annað borð hefði það átt að gerast miklu fyrr um kvöldið miðað við ástandið á skvísunni. En jæja.... Á Manhattan komumst við nú og ég fór á klósettið. Þá blasti við mér gat á buxunum mínum, á sokkabuxunum og þegar ég fór að athuga það nánar... líka á hnénu. Og það sást alveg í kjötið, eins og maður sagði alltaf þegar maður fékk slæm sár sem krakki. Ég tók klósettpappír og setti við sárið og lét sokkabuxurnar halda við pappírinn. Fór svo fram og hitti þar fylgdarkonuna sem sagði að hér væri ekkert skemmtilegt þannig að við gætum alveg farið. Við fórum út og ég sagðist ekki þora öðru en að fara upp á slysó til að láta kíkja á hnéð. Hún fékk vægt taugaáfall og bauðst til að finna með mér leigubíl og senda mig upp á slysó. Sem er "skaðastova" á færeysku. Mér fannst hún alltaf segja skíðastova og hló mikið að því. En upp á slysó fór ég þar sem tvær konur gerðu að sárum mínum. Ég var að sjálfsögðu í kastinu allan tímann og fannst hjúkkan agalega dónaleg þegar hún bað mig að fara úr buxunum. "Buxunum?? En ég er bara með sár á hnénu??" Ég lét þó undan og treysti því að þær myndu ekki misnota sér ástand mitt. Ég varð því ægilega glöð þegar hjúkkan svaraði því játandi að það hefði verið rétt hjá mér að koma. Ég var nefnilega alltaf að velta því fyrir mér hvað það hefði verið vandræðalegt ef þær hefðu bara skellt plástri á sárið og sagt mér að fara heim að sofa. En nei.. það þurfti að sauma. Hjúkkan var alltaf að vara mig við einhverjum sársauka sem lét nú á sér standa en ég leyfði henni nú samt að halda í höndina á mér á meðan ég var deyfð. Held að henni hafi bara liðið betur yfir því. Konulæknirinn saumaði mig svo saman, 4 eða 5 spor og þar sem ég er búin að horfa svo mikið á Grey's Anatomy var ég alltaf að velta fyrir mér hvort hún hefði gert þetta áður. Ég held nú samt að hún hafi staðið sig vel stelpan. Ég var svo leyst út með stífkrampasprautu og þá mátti ég fara heim. Ég bað einhvern þarna um að hringja á leigubíl fyrir mig þar sem ég var víst búin að týna símanum mínum og eftir langa og stranga nótt gat ég loksins farið að sofa.
Ég vaknaði daginn eftir við að Bartal var komin til að sækja fötin sín. Hann var fjarri góðu gamni og var í kastinu yfir að ég hefði endað upp á slysó. Hann vissi heldur ekkert um símann minn en ég var nú ekki mjög áhyggjufull þar sem það eru allir svo heiðarlegir hérna í Færeyjum. Ég vissi að ef einhver hefði fundið hann myndi hann að öllum líkindum enda hjá mér aftur. Sem varð svo auðvitað raunin. Nokkrum hálftímum síðar kemur mamma hans til mín og segist vera með símann minn. Vinkona hennar hafði fundið hann í jakkavasa mannsins síns. Ekki veit ég hvað hann var að gera þar nema að hann hefur trúlega fundið hann. Konan hans var nú eitthvað efins og ég er að spá í hvort ég eigi að hringja í hana og segja henni að það séu nú engar líkur á að ég hafi verið að reyna við manninn hennar
En þetta var alla vega mjög skemmtilegt kvöld þótt það hafi kannski endað með öðrum hætti en ætlað var. En ég gat nú ekki látið brósa litla einan um að heimsækja slysó að loknu djammi, ég varð að fá að prófa líka.
Ég ætla að henda inn myndum af herlegheitunum inn á flickr síðuna mína. Njótið!!
Athugasemdir
hehehe, þinn fullur á slysó, gott að gert var vel að sárum þínum Var annars farin að halda að þú værir búin að steingleyma að þú hefðir einhverntíman verið með bloggsíðu! knúsí
halldora (IP-tala skráð) 10.6.2007 kl. 18:57
hahaha en skemmtileg saga Hugrún mín..ekki alveg eins skemmtilegt að þú skulir hafa endað á slysó..en það tísti aðeins í mér þegar ég las það hehe
Hafðu það obbolega gott sæta mín..
knús á þig frá okkur
Íris Dögg (IP-tala skráð) 11.6.2007 kl. 21:25
Íris mín, það er sko í góðu lagi að tísta yfir þessu... ég er alla vega búin að hlægja nógu assgoti mikið að þessu
Hugrún , 11.6.2007 kl. 22:28
Og er ekki alveg hætt enn reyndar....
Hugrún , 11.6.2007 kl. 22:28
haha.... hermikráka. þú varst nú betri en ég og fékkst alvöru aðhlynningu. fékkstu ristað brauð og djús á eftir?
Kjartan (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 17:02
Hehehe nei ekkert ristað brauð og djús enda þurfti ég ekkert að borga
Hugrún , 13.6.2007 kl. 21:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.