Dagatal, bíll, pæjuskapur og bingóvinningur

Í dag er 5.desember... í myndadagatalinu sem ég keypti af einhverjum aumingjans manni sem stóð skyndilega inni á gólfi hjá mér, þar sem hann bankaði ekki frekar en aðrir Færeyingar, var eitthvað sem minnti mest á arfa með rauðri slaufu. Dagatalið er líka síðan fyrra, bara búið að líma yfir fimmið og skrifa sex í staðinn með kúlupenna. Kannski var sölumaðurinn bara fullur allan desember í fyrra og er að nota dagatalið til að fjármagna fylleríið þetta árið.

Bíllinn minn er kominn af verkstæðinu, ekki í lagi en ég er búin að fá hann aftur. Komin með nýja sílendra í allar læsingar og allt. Næsti viðgerðatími á öðru verkstæði er 11.desember. Fæ hann kannski þaðan í febrúar ef ég er heppin. Verkstæðið sem er búin að liggja á honum í rúman mánuð þurfti samt að gefa honum start áður en ég gat keyrt kaggann af planinu hjá þeim, höfðu gleymt að slökkva á ljósunum. Já og svo hljóp ég inn með lykla af einhverjum öðrum bíl sem lágu á mælaborðinu áður en ég fór. Ég brosti samt til mannsins sem ég afhenti lyklana. Það var hálfgert vorkunnarbros... nei, ég meina samúðarbros. Þetta eru eintómir snillingar!

Þegar ég er að labba heim úr vinnunni í kolniðamyrkri með KT Tunstall í eyrunum og labba í takt við tónlistina í háhæluðu stígvélunum mínum og jafnvel í pilsi ef þannig liggur á mér finnst mér ég algjör pæja. Veit ekki af hverju, það er bara einhver stemming í því. Hef samt líka komist að því af hverju svona margir gemsar eru með vasaljósi. Í útlöndum eru ekki allir göngustígar upplýstir eins og heima. Ég fer því oftast lengri leið. Kona er ekki lengur pæja ef hún dettur.

Samtökin 78 eru með jólabingó. Í verðlaun eru ferð fyrir tvo til Færeyja með gistingu. Mér finnst það fyndið. Þeir sem ekki hafa fylgst með verða að vita að það eru búnir að liggja undirskriftalistar út um allar eyjar til að mótmæla frumvarpi um lög sem segja að ekki megi mismuna fólki eftir kynhneigð. Þeir óttast að ef það verði samþykkt að þá verði bara að samþykkja staðfesta sambúð samkynhneigðra næst eða eitthvað annað enn hræðilegra. Ýmsir pólítikusar mæta í sjónvarpið og nefna samkynhneigða aldrei neitt annað en kynvillinga. Þeir geta ekki einu sinni notað hlutlausara orð. Ég ætla nú samt ekki að æsa mig meira yfir þessu, hef bara samúð með þessum aðilum. Hitt er svo annað mál að mér finnst samt fyndið að samtökin séu með þessi verðlaun í bingóinu, gistingin er líka á hóteli sem útvegaði pörum sitthvort herbergið ef þau voru ekki gift... og það er ekkert svo ofboðslega langt síðan.

Bara 17 dagar þangað ég kem heim! 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frændur okkar er nú heldur aftarlega á þessari marg umtöluðu meri.  Ég væri alveg til í að kaupa af þér dagatalið að ári liðnu.  Þú hugsar málið..

kv
Þröstur

Þröstur (IP-tala skráð) 6.12.2006 kl. 04:16

2 identicon

býð tvöfalt það sem þröstur ætlar að borga þér fyrir dagatalið!

kjartan (IP-tala skráð) 6.12.2006 kl. 09:42

3 Smámynd: Hugrún

Sá sem hæst býður hlýtur hnossið. Ég skal vera búin að festa gluggana aftur með kennaratyggjói

Hugrún , 6.12.2006 kl. 18:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband