Gestabumbublogg

Nú situr undirrituð og bíður eftir því að leggjast undir hnífinn hjá snillingunum á Landsspítala Háskólasjúkrahúsi við Hringbraut (finnst einhverjum fleirum en mér þetta vera óþjált nafn ??) í næstu viku til að sækja þriðja afkomanda okkar hjóna – sem, nota bene, er ekki vitað hvort verður þriðji drengurinn eða lítil harðstjórakona í karlaveldið sem fyrir er. ( Þá missi ég kannski völdin.....jeminn..)

En bumban er orðin stór og komin tími til fyrir leigjandann að flytja sig um set, úr þægindunum og út í hinn stóra, kalda heim. Það verður að vísu geysilega vel tekið á móti krílinu af tveimur stórum bræðrum ( 7 og 9 ára) sem bíða ofurspenntir eftir systkyninu og enn spenntari foreldrum, sem eru meira og minna búnir að gleyma hvað það er að annast ungabarn. Líklega sem betur fer, því annars hefðu þeir kannski alls ekki lagt í þetta! En hitt veit ég – að þetta er allt saman þess virði.

En mikið verður nú gott að losna við stóru bumbuna, endalaust bakflæði og að ég tali nú ekki um bjúginn sem gerir afskaplega lítið fyrir mann - svona útlitslega séð allavega. Þið hafið öll séð hvernig ristin á litlum, vel búttuðum börnum er; svona bogadregin og mjúk og voðalega krúttleg. Svoleiðis er ég. Nema hvað, að þetta er einhvern veginn ekki nærri eins krúttlegt í skóstærð 39 eins og í skóstærð 16-18 ! Og fingurnir minna helst á auglýsingu frá SS pylsum. Ég er semsagt alveg ótrúlega sexý um þessar mundir (svona meira en venjulega sko !) 

En hér er ég semsagt, búin að vera að þvo agnarlítil barnaföt, full vantrúar á því að nokkur mennskur einstaklingur komist í svona lítil föt, og voru þó fyrirrennarar þessa barns, og fyrri eigendur fatnaðarins, 17 og 18 merkur við fæðingu, sem telst víst ekki svo lítið !Nú, og svo er búið að baka nokkrar smákökusortir og eina brúna lagköku og versla fullt af jólagjöfum því það er útséð um að það að maður geri eitthvað af viti frá sjötta des. og fram að jólum, þegar búið er að rista mann á hol ! 

En eitt er eftir og það er að ávkeða nafn á blessað barnið. Það er að vísu til stelpunafn en við erum að verða uppiskroppa með strákanöfn. Allar tillögur eru vel þegnar. Símadömurnar í Intrum, þær Kolbrún og Jóhanna, eru mjög hallar undir nafnið Jóhann Kolbrúnn, svo má líka láta sér detta í hug, ef þetta verður strákur, nafnið Hugrúnn Óskar - hvernig líst ykkur á það? Eða kannski við þurfum að hugsa þetta aðeins betur...???? 

En hér er ég búin að láta gamminn geysa um mig og mína bumbu og hef ekki minnst einu orði á gestgjafann, hana Hugrúnu mína. Ég er greinilega ekki eins kurteis og kann mig ekki eins vel eins og hún Anna mín sem taldi, réttilega, mest viðeigandi að skrifa um Hugrúnu. Ég er bara svona illa upp alin held ég. En það verður ekki bætt úr því héðan af ;o) 

Með bumbukveðju, 

Bumbulína Jolie ( Jóna Bryndís)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hugrún

Ég ákvað nú að birta þessa færslu þótt ég væri nú varla nefnd á nafn!! Svona verður maður sjálfhverfur þegar maður fer að blogga svona.

Nei svona í alvöru þá er Jóna Bryndís ein af mestu snillingum sem ég þekki og ber þetta blogg hennar þess best vitni. Hún fær miklar þakkir frá mér og mun ég eflaust leita aftur til hennar ef andinn yfirgefur mig aftur. Svo þarf bara að finna nýtt nafn á hana þegar bumban verður horfin 

Hugrún , 28.11.2006 kl. 11:08

2 identicon

Hæ, glæsilegt gestabumbublogg hjá J.B...eða B.J

Það er allt í lagi Jóna mín þó að þú hafir lítið talað um Hugrúnu. Það er ekki eins og jörðin snúist kringum hana. Á hún þessa síðu ? Annars er ég mjög spennt fyrir þína hönd hvað gerist þann 6. des og vona að allt gangi vel. Þú manst að ég sagði stelpa  Kveðja A.J

Anna Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 28.11.2006 kl. 11:17

3 identicon

Heyrðu mig nú dóttir góð.  Hvert er þetta blogg eiginlega að stefna hjá þér?  Gestablogg!!!!!  Hvað er það nú ofan á brauð?.  Af hverju ekki að viðurkenna bara andleysi sitt og skrifa sjaldnar ef ekkert er að gerast.  Nú eða að hleypa einhverju fútti í líf sitt svo þú hafir frá einhverju að segja.  Ég fékk næstum slag við að lesa þetta.  Þú minntist ekkert á óléttu þegar þú komst síðast og það sá ekkert á þér að ráði.  Svo þegar ég fór að lesa þetta komst ég að hinu rétta. 

kv

Pabbi

Pabbi (IP-tala skráð) 28.11.2006 kl. 15:00

4 Smámynd: Hugrún

Pabbi minn þú færð að skrifa líka, engar áhyggjur! 

Hugrún , 28.11.2006 kl. 18:09

5 identicon

Úps....fyrirgefðu Bjarni Hugrúnarpabbi - ætlaði ekki að láta þig - né aðra - fá hjartaáfall og halda að Hugrún væri rétt ófarin á fæðingadeildina.

En svo fannst mér þetta nú bara frekar fyndið þegar ég fór að pæla í þessu

En - sorrý samt, enn og aftur.

Jóna Bryndís (IP-tala skráð) 29.11.2006 kl. 08:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband