Sunnudagur, 26. nóvember 2006
Sunnudagskrif
Úffff svaf nú allt of lengi. Spurði sjálfa mig hvort ég væri ekki alveg í lagi þegar ég vaknaði klukkan hálfþrjú. Búin að sofa í 13 og hálfan tíma. Svaraði mér að sama skapi að ég væri nú örugglega bara orðinn langþreytt eftir lítinn svefn í of langan tíma. Ákvað alla vega að fara ekki að hafa áhyggjur af svefnsýki strax.
Annars er ég nú öll að þiðna. Olían kláraðist á hitasísteminu á fimmtudaginn og kom voða duglegur maður um kvöldmatarleytið og setti meiri olíu og fiktaði eitthvað í júnitinu sem er hérna í kjallaranum hjá mér. Spurði mig líka eitthvað um hvar tankurinn væri og svoleiðis en ég vissi ekki baun. Sagðist bara vera frá Íslandi þar sem kæmi bara heitt vatn þegar maður skrúfaði frá krananum og frekari pælinga væri ekki þörf. Hann fann svo auðvitað olíutankinn enda með eindæmum klár og vel gefinn maður. Á föstudaginn kom ég svo heim úr vinnunni og var nú ekki búin að vera lengi heima þegar ég var orðin frosin inn að beini og barðist við sultardropann sem vildi ólmur detta af mínu fallega nefi. Ég sá þó ávallt við honum og endaði hann líf sitt smurður út á handarbakinu á mér. Ég varð þó að þola kuldann allt föstudagskvöldið og skreið upp í rúm í ullarsokkunum. Laugardagurinn bar með sér bjartsýni og aukna von að eitthvað myndi hitastigið hækka í íbúðinni. Ég vissi sko að þau væru líka að frjósa á eftri hæðinni og ég treysti því að þau myndu fara og öskra á einhvern saklausan olíumann að koma og redda þessu. Það gerðist þó ekki fyrr en um sexleytið sem annar olíumaður kom. Hann spurði mig líka helling af spurningum og sem betur fer er það nú í eðli mannsins að læra og var ég því ekki alveg jafn heimsk og síðast og gat sagt honum hvar olíutankurinn var. En það sem upp úr stendur frá þessari heimsókn var að hann lagaði sístemið og nú er heitt og gott í íbúðinni.
Það sem einnig olli mér nokkru hugarangri á meðan ísöldin stóð yfir var að ég komst auðvitað ekki í sturtu, ég var sem sagt ekki tilbúin að taka finnskt brúsubað á þetta allt saman. Ég var búin að hlakka svo til að fara í langa sturtu, krema mig frá toppi til táar með bláberjakremi og vera svo á náttfötunum að dúlla mér allan daginn. Þetta gat ég ekki gert fyrr en rúmlega sex. En sturtan var góð engu að síður og bláberjailminn lagði um allt eftir að baðinu var lokið.
Ég afrekaði samt að gera helling þrátt fyrir frosna útlimi á laugardaginn og mun ég nú deila því með ykkur. Vaknaði rétt fyrir ellefu, byrjaði daginn á að senda jákvæða strauma og hugsanir til Íslands (veit ekki alveg hvernig þannig fjarskiptabúnaður er hérna í Færeyjum, en það kemur í ljós), dreif mig svo í búðir og keypti smá svona jóladót. Kom svo heim og bakaði croissant og velti fyrir mér í leiðinni að þetta væri nú ekki gott að venja sig á en huggaði mig við það að ég hefði eina góða vinkonu sem ég gæti kennt um aukakílóin þar sem hún kom mér á bragðið. Croissantin voru ljúffeng að vanda og þeim var skolað niður með kaffi frá Kenýa. Síðan klippti ég niður greni og sullaði saman einum aðventukransi sem ég hef aldrei nennt að gera eftir að ég flutti úr foreldrahúsum. Mín var svona líka hissa á sjálfri sér og ánægð með árangurinn. Læt mynd fylgja með af meistarverkinu.
Að þessum öllu loknu eldaði ég svo lúffengan kjúlla og horði á Constant Gardener, sem var bara ágætis mynd. Svo þið haldið nú ekki að ég sé svona sló þá varði ég líka mörgum klukkustundum í að rabba við vini og vandamenn og það var gefandi og gott að vanda.
Játning dagsins: Ég er aftur að borða croissant en nú er pakkinn líka búinn og verður ekki keyptur aftur í bráð
Áskorun dagsins: Ég skora hér með á Bumbulínu Jolie að vera næsta gestabloggara. Umræðuefnið er algjörlega frjálst, má meira að segja tengjast óléttum eða bleyjum. Mæli með færslu fyrir komu nýja fjölskyldumeðlimsins og má hún sendast á hugrunb@internet.is
Athugasemdir
Hæ elskan! Flottur kransinn hjá þér. Nú fer ég að láta þig bara í þetta, bíð kannski með minn krans fram á Þorláksmessu Vá, tókst hjá mér að setja kallinn!!!!
Heyrumst
mamma
sigrún (IP-tala skráð) 26.11.2006 kl. 16:30
Neinei þú mátt nú ekki detta úr æfingu En gott að þú ert búin að læra á kallana, þeir eru svo krúttlegir
Hugrún , 26.11.2006 kl. 19:07
Alltaf gaman að lesa bloggið þitt elskan mín. Glæsilegur kransinn Hirru nú mig hver er Jolie? voðalega forvitin ;)
sipp og hoj og hafðu það gott elskan mín
Íris (IP-tala skráð) 26.11.2006 kl. 23:15
Hæ hæ.
það var gott að þú lifðir ísöldina. Líst vel á áskorun dagsins....Go Jóna!
Anna Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 27.11.2006 kl. 08:55
Nújá. Manni hefnist fyrir að vera að gera sig breiðan í kommentunum og þykjast vera fyndinn......EN - maður getur nú kannski ekki skorast undan svona. Þarf aðeins að sjá hvort andinn kemur yfir mig
Bé Djólí (IP-tala skráð) 27.11.2006 kl. 13:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.