Skömmustutilfinning og ryksuga

Ég skammast mín nú fyrir að vera ekki búin að láta heyra í mér svona lengi. Ég er ekki komin með nettengingu heim og hef ekki haft tíma til að slæpast í vinnunni. En í dag réð ég bót á því og keypti USB lykil svo ég geti skrifað heima en hent blogginu inn í vinnunni. Jájá maður deyr ekki ráðalaus!

Það er nú reyndar ekki mikið sem á daga mína hefur drifið eftir hetjulega baráttu mína við skrímslið, ég hef í mesta lagi þurft að henda út einni og einni kónguló og eftir hina svaðilförina tekur því ekki að nefna slíkt smáræði.

Dagarnir hafa u.þ.b. verið á eftirfarandi hátt:

  • Vakna við óþolandi hljóðið í vekjaraklukkunni (eftir nokkur snús að sjálfsögðu)
  • Sturta og almenn útlitstiltekt
  • Vinna
  • Fara í búðina (misjafnt hvaða tilgangi innkaupin þjóna)
  • Lesa, leggja kapal í tölvunni, hekla, þrífa (fer eftir skapi hvern dag)
  • Sofa

Ótrúlega spennandi ekki satt? Þetta er samt voða þægilegt og ótrúlegt hvað manni dettur í huga að gera þegar maður ætti að vera að læra. Einföldustu heimilisverk verða ótrúlega spennandi þegar yfir manni vofir að þurfa að fara að læra. Og þar sem ég er svo upptekin af heimilisverkunum langar mig að kynna til sögunnar næst nýjasta heimilistækið en það er ryksugan mín. Taarraaaa!!

Hana keypti ég af dönskum gaur sem var jafn lélegur í færeysku og ég, þannig að ég var ótrúlega sátt við að tala við hann ensku. Við ræddum dálitla stund um það hvernig húsnæði ég væri að fara að ryksuga og ég tjáði honum að þetta væru ca. 100 fermetra íbúð. Hann vildi þá vita hvort það væri mikið um teppi en ég kvað svo ekki vera. Ég var ekki að tíma að eyða miklum pening í þetta apparat og var því ægilega glöð þegar ég komst af (miðað við þessar upplýsingar sem ég gaf danska manninum) með ódýrustu ryksuguna. Ég fór því heim alsæl með nýja gripinn og ég var sko alveg búin að gleyma hvað það er gaman að ryksuga! Maður bara setur stútinn yfir eitthvað drasl á gólfinu og það bara hverfur! Engin fægiskófla og ekkert vesen! Ég spái því nú samt að nýjabrumið fari fljótt af þessu undratæki þegar ég minnist þess að ég átti alltaf að ryksuga upp fjaðrir og korn sem páfagaukurinn minn dreifði út um allt herbergið mitt þegar ég var ung. Ég var ekkert svo dugleg við það, móður minni til mikillar armæðu. Ég vil þó meina það að áhuginn á ryksugun hafi ekki verið meiri hjá mér vegna þess að hún átti (og á reyndar enn) svo stóra og ljóta ryksugu. Mín ryksuga er falleg og nett!

En víkjum þá aðeins að leiðbeiningunum sem fylgdu tækinu. Það var sko eins gott að ég las þær... annars hefði ég örugglega aldrei getað klórað mig fram úr virkni tækisins. Í fyrsta lagi er manni sagt hvernig eigi að setja saman alla hlutina en það hefði ég nú aldrei fattað án leiðbeininganna. Það eru sko tvær stillingar á hausnum, ein ef maður er að ryksuga gólf og önnur ef maður er að ryksuga teppi. Svo fylgir með annað stykki sem maður setur á ef maður er t.d. að ryksuga húsgögn eða bækur. Sniðugt! Það sem mér fannst samt aðalfúttið er að maður getur stillt ryksugunni upp á tvo vegu: Annars vegar þegar maður setur hana á geymslustaðinn og hins vegar þegar maður er að ryksuga en þarf t.d. að færa stól eða eitthvað, þá getur maður krækt hausnum á ryksuguna sjálfa og þannig stendur rörið og allt bara uppi! Þetta finnst mér ótrúlega sniðugt þar sem maður er svo oft að ryksuga og þarf að færa eitthvað og það er svo ótrúlega pirrandi að maður veit aldrei hvað maður á að gera við rörið og það. Yfirleitt reynir maður að stilla því upp við vegg en það dettur næstum því alltaf með skellum í gólfið. Þess vegna finnst mér þetta svo sniðugt! Ég læt fylgja með myndir af tækinu góða, bæði í geymslustellingunni og í stellingunni sem maður setur það í ef maður þarf að færa stól.

Næsta færsla verður um moppujúnitið sem ég keypti!


Í geymslustöðunni
Ef maður þarf að færa húsgögn  :O)
Í nærmynd

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ ! innilegar hamingjuóskir með nýja leikfélagann þinn (sjá myndir að ofan). Bíð spennt eftir moppufærslunni. Þetta sýnir manni bara að það þarf nú ekki alltaf glys og glaum stórborganna til að gleðja fallegar sálir :) Go Hugrún !!

Anna Jóhanns (IP-tala skráð) 10.8.2006 kl. 09:14

2 identicon

Innilega til hamingju með nýja dótið! Er komin með nokkuð góða hugmynd að stórafmælisgjöf handa þér ;o)

Lára (IP-tala skráð) 10.8.2006 kl. 10:08

3 identicon

Til hamingju með nýja dótið :) Hlakka til að heyra um besta vin hans :þ Gott og gaman að þú skildir geta sagt okkur að þú sért (en) á lífi. Þar til næst...

Sigga Elka (IP-tala skráð) 10.8.2006 kl. 12:41

4 identicon

Þú ert náttúrulega bara snillingur, maður sér ryksugur í allt öðru ljósi eftir þessa lesningu. Annars kemur það ekki á óvart að þú ert frábær penni :o). Hafðu það ýkt gott

Soffía (IP-tala skráð) 10.8.2006 kl. 13:51

5 identicon

Mér finnst þetta ossalega sniðugt tæki sem þú keyptir þér. Mig minnir reyndar að ég eigi eitthvað svipað heima. Þarf að gá.
Ég skildi samt ekki alveg muninn á því að ryksuga teppi vs. að ryksuga gólf. Ertu með veggteppi eða.....??

Jóna Bryndís (IP-tala skráð) 10.8.2006 kl. 14:10

6 Smámynd: Hugrún

Jóna mín... teppi er ekki gólf, það er teppi! Gólf er gólf eins og parket eða dúkur eða steinn eða flísar... ekki teppi!! :OÞ

Gaman að sjá hvað þið eruð duglegar að kommenta! Ég brosi alveg út í annað og stundum bæði :O)

Hugrún , 10.8.2006 kl. 15:58

7 identicon

Hvernig fóru þrifin eiginlega fram á Boðagrandanum??Virðist vera að kynnast ryksugu í fyrsta sinn :) - svalahurðin kannski bara opnuð og látið sjálfhreinsast með rokinu?! Gaman að þú skemmtir þér svona vel við heimilisþrifin. Snilldarskrif :)

Valdís og Jón Emil(hann bað sérstaklega um að vera tekinn fram) (IP-tala skráð) 10.8.2006 kl. 20:29

8 identicon

Mér finnst nú gamla, stóra ryksugan mín bara fín (hún er reyndar orðin 30 ára, nokkrum mánuðum eldri en sumir!!!)og enn nothæf. Þessi tekur sig reyndar mjög vel út, kannski ég fari að kíkja eftir nýrri svo þú fáir að njóta þess að ryksuga þegar þú kemur í gistingu hingað........

sigrún (IP-tala skráð) 10.8.2006 kl. 20:47

9 Smámynd: Hugrún

Ég get líka bara komið með mína... Hún er svo lítil að ég kem henni alveg í töskuna :O)

Hugrún , 11.8.2006 kl. 08:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband