Laugardagur, 28. október 2006
Víti til varnaðar
Þegar þið eruð ein heima og ákveðið að opna eina rauðvín á meðan þið kjaftið í símann við vinkonurnar, komist svo allt í einu að því að flaskan er skyndilega búin og þið fenguð ekki gesti, farið þá bara beint að sofa en ekki fara að leika ykkur að taka myndir af ykkur sjálfum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 26. október 2006
jæja
Vildi bara láta vita að það er ekkert í fréttum! Kannski gerist eitthvað skemmtilegt um helgina.
Vil bara minn á söfnun fyrir Ingólfsskála. Stór sem smá framlög vel þegin. 0111-26-12829.
Takk!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 25. október 2006
Lenska
Það er ákveðin lenska að óska fólki til hamingju með afmælið á bloggsíðum sem þessum.
Til hammó með ammó elsku Kjartan krúsíkútur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 24. október 2006
Sár rass
Á mánudagsmorguninn vaknaði litla prinsessan kl. 6.10 um nóttina til að hitta vinnufélagana í spinning. Þeir sem þekkja mig trúa þessu örugglega ekki en ég er ekki að plata!! Tíminn hófst 6.45 stundvíslega og það rifjuðust upp gamlar þjáningar frá því að ég tók spinning skeiðið í Planet Pulse hér á mínum yngri árum. Man sérstaklega eftir hvað "Purple Rain" er ótrúlega langt lag... En í Færeyja spinning tímanum voru öll lögin frekar löng sem segir bara mest um líkamlegt ástand prinsessunnar. Ég huggaði mig þó við það að ég var langt frá því að vera í verstu málunum þarna og ég hélt persónulega að ég væri í mun verri málum. Ég hef því ákveðið að fjárfesta í korti í þessari stöð sem heitir annars Yndi. Í dag er því rassinn aumur og ég finn meira fyrir fótunum en alla aðra daga en það er bara hvati til að halda áfram og reyna að koma sér í eitthvað form hérna í sveitinni. Veit samt að ég þarf að taka á honum stóra mínum til að nenna að drullast í ræktina en fyrsta skrefið er alla vega að kaupa kortið.
Það byrjaði annars að snjóa hér í höfn Þórs í kvöld og ég vona bara að hann verði farinn á morgun blessaður enda segir nú veðurspáin að hann fari hlýnandi. Hver sem svo þessi hann er...
Ég er líka búin að setja inn myndir úr brúðkaupinu sem ég var víst búin að lofa.
Það heldur svo annars í mér lífinu þessa dagana að nú eru bara 9 dagar þangað til Anna kemur í heimsókn. Þarf alveg á því að halda að hitta einhvern að heiman og þá er Anna nú miklu betri en enginn. Enda þekki ég engan ekki neitt... Hehehe brandararnir alveg hrynja af mér í kvöld
Bið ykkur vel að lifa í bili...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 21. október 2006
Tiltekt á útkriftardegi
Er búin að vera á fullu að taka til og þrífa íbúðina síðan ég vaknaði um eittleytið. Er ekki búin að fara í sturtu og er enn bara á náttfötunum. Er ekki einu sinni í brjóstahaldara svo þið getið ímyndað ykkur ástandið. Í þessu ástandi er ég búin að þrífa klósettið, vaska upp, hengja upp tvær rimlagardínur og taka niður ógeðslegu appelsínugulu gardínurnar sem voru fyrir gluggunum, setja í eina vél og hengja upp úr henni, vökva blómið og skipta á rúminu. Úff allt búið nema gólfin, þau verða tekin á morgun. Alveg magnað hvað manni finnst líka hreint í sálinni þegar umhverfið í kringum mann er snyrtilegt. Þá má velta fyrir sér hvort þeim sem eru alltaf að þrífa líði alltaf svona illa?? Hehehe eða þá að þeir eru bara ekki jafn miklir sóðar og ég!
Randi spurði mig á fimmtudaginn hvort við ættum að fara út að borða á laugardaginn. Hún saknar þess að eiga ekki mann sem bíður henni út að borða en í stað þess að leggjast í volæði og sakna þess finnur hún bara einhvern annan til að fara með út að borða .... mig. Ég var alveg til og það var ekki fyrr en í gær sem ég fattaði að ég er víst að útskrifast úr háskólanum í dag. Ákvað því að líta líka á kvöldið í kvöld sem fagnað vegna útskriftarinnar. Ég er svo sem ekkert að missa mig yfir þessum áfanga mínum, fannst einhvern veginn miklu merkilegra að klára stúdentinn. Það er líka kannski þar sem ég er nú búin að vera svo lengi að þessu...
Bartal ætlar svo að hitta okkur seinna í kvöld en hann er á ráðstefnu í dag sem ber yfirskriftina "Bankamaður Guðs" Ætla svo sem ekki að tjá mig neitt meira um það!!
Ég er annars bara hress þessa dagana. Er mikið búin að vera að velta fyrir mér mannlegum samkiptum undanfarið og það leiðir mig alltaf að þeirri staðreynd að maður getur ekki breytt öðrum, bara sér og sínum viðhorfum. Ég er því að reyna að einbeita mér að jákvæðum eiginleikum fólks og að því sem mér líkar í fari þeirra og reyni að leiða hjá mér það sem fer í taugarnar á mér. Held samt mínu striki samt sem áður og er í fyrsta skipti á ævinni að reyna að láta það ekki hafa áhrif á mig hvað fólki finnst um mig. Þá meina ég að það þurfa ekki allir að vera vinir manns og ef einhver er ekki sáttur við það sem ég segi og geri þá er það alfarið vandamál þess einstaklings, þ.e.a.s. á meðan ég er ekki að gera neitt til að viljandi særa viðkomandi.
Svona þroskast maður nú í Færeyjum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Fimmtudagur, 19. október 2006
Af heimferð, brúðkaupi og plönum
Jæja nú hef ég engar afsakanir lengur á reiðum höndum, (enda eru þær hættar að vera reiðar). Hér kemur bloggið um þarsíðustu helgi. Ég er smá eftir á en ég mun bara stikla á stóru!
Ég settist upp í flugvélina (þetta er bara fyrir þig Lára mín) og flaug til Íslands. Á leiðinni sat ég og hugsaði um væntanlega veislustjórn og hripaði eitthvað niður þar að lútandi. Mamma tók svo á móti mér á Reykjavíkurflugvelli og eins og við var að búast var taskan mín auðvitað síðust úr vélinni. Það urðu miklir fagnaðarfundir þótt ég væri bara búin að vera burtu í rúma tvo mánuði. Það er nú alltaf gott að hitta mömmu sína. Stefnan var tekin á Kringluna þar sem við settumst Íslandsmet í hraðkaupum. Ég þurfti auðvitað að nota gjafabréfin sem ég hafði fengið frá vinnufélugunum í afmælisgjöf. Það varð smá drama þegar skósmiðurinn fann ekki skóna sem ég hafði sett í viðgerð á Íslandi þar sem skósmiðurinn í Færeyjum var í fríi allan september. Ég sá fram á það að þurfa að vera berfætt í brúðkaupinu!! Það reddaðist samt á endanum og skórnir höfðu verið í öruggri geymslu í "Kaupfélaginu". Ég og mamma hlupum á milli verslana þar sem við höfðum bara fimmtíu mínútur til að kaupa eftirfarandi: Kápu, stígvél, maskara, töfrapenna og sjampó. Þar sem ég er nú frekar pikkí á suma hluti og get ekki bara ráfað inn í hvaða verslun sem er og fundið eitthvað sem passar kom mér, og mömmu líka, mjög mikið á óvart þegar þetta tókst allt saman og við hlupum úr Kringlunni með fangið fullt af nýju dóti.
Ég var svo nýkomin heim til mömmu og pabba þegar vinkonur mínar tóku að streyma þangað til æfingar fyrir brúðkaupið á laugardeginum. Æfingin gekk bara vel og um níuleytið henti ég þeim út og brunaði á Háteigsveginn til að hitta nokkra úr vinnunni. Það var yndislegt kvöld í hópi góðra vina. Ég rankaði allt í einu við mér þegar klukkan var að verða fjögur og dreif mig heim að sofa.
Klukkan 10.30 daginn eftir var ég mætt í klippingu og litun hjá Emilíu og þar mætti einnig brúður dagsins í greiðslu. Þegar ég var orðin fín og flott fór ég heim að hafa mig til fyrir kirkjuna og einnig að undirbúa enn frekar veislustjórnina. Fór svo í yndislega athöfn í kirkjunni þar sem Halldóra vinkona var auðvitað aðalskvísan. Stórglæsileg brúður!! Ég fór svo heim aftur eftir kirkju og hafði smá tíma heima áður en veislan hófst. Veislustjórnin tókst bara ágætlega og maturinn var æðislegur. Við vinkonurnar skemmtum okkur konunglega en við vorum nú bara tvær sem höfðum orku í að kíkja í bæinn eftir brúðkaupið.
Sunnudagurinn fór svo að mestu í að njóta þess að vera með fjölskyldunni. Kjartan og Juliana komu í mat til mömmu og pabba og við sátum bara og kjöftuðum þangað til ég fór í heimsókn til Siffu. Á mánudeginum fór ég svo niður í vinnu og hitti vinnufélagana og svo var bara kominn tími til að koma sér út á völl og taka flugið til Færeyja aftur. Þetta var því mikið prógram en samt voða notalegt að koma aðeins heim. Var samt alveg til í að fara aftur í rólegheitin í Þórshöfn.
Síðan þetta var er ég bara búin að vera voða róleg. Bartal hjálpaði mér að setja saman blessað borðið en ég hef nú ekki alveg lagt iðnaðarmanninn í mér á hilluna þar sem ég er búin að hengja upp rimlagardínur alveg ein og sjálf. Ég er líka reyndar að drukkna í vinnu og það eru einfaldlega ekki nógu margir klukkutímar í sólarhringnum til að gera allt sem ég þarf að gera. En það stendur nú allt til bóta með ráðningu nýs starfsmanns á skrifstofuna hjá okkur.
Svefnleysi hefur líka hrjáð mig eilítið en það er bara sökum stressssss (hvað eru mörg s í því?) og hugsana sem leyta á mig þessa dagana. Svo styttist nú óðum í næstu heimsókn því nú eru bara tvær vikur þangað til Anna vinkona kemur til mín í gleðina. Ég hef nú engar áhyggjur af því að okkur muni leiðast hætis hót.
Jæja ég veit að þetta var ekkert sérstaklega skemmtilegt blogg en vona að þið takið viljann fyrir verkið og það er aldrei að vita nema næsta blogg verði eilítið skemmtilegra.
Get ekki sett inn myndir í augnablikinu... eitthvað klikk í kerfinu.... þannig að þær koma síðar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 17. október 2006
Pressa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 12. október 2006
Mér finnst rigningin góð
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 9. október 2006
Allt umhverfis mig...
sjást aðeins ógreinileg tilbrigði við lífið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Fimmtudagur, 5. október 2006
Tvöföld uppgjöf!!
Ja nú er illt í efni... ég hef tvisvar þurft að játa mig sigraða í dag og geri ég það nú aldrei fyrr en í fulla hnefana! Fyrst var það Hugrún bifvélavirki eða réttara sagt Hugrún rafvirki sem hófst handa við að reyna að koma ljósum aftan á bílinn. Hann er alveg ljóslaus að aftan og það er víst bannað að aka um á svoleiðis faratæki hér sem annars staðar. Eftir nokkur símtöl við pabba var ég orðin útlærð í því hvernig ætti að sjá þegar öryggi væri farið og hvað tvípóla perur væru. Já hlægið þið bara... ég vissi þetta ekki fyrir! Svo brunaði ég á bensínstöðina og keypti perur og öryggi í massavís og skipti um allt heila klabbið. Ég var svaka ánægð með afraksturinn því ég hef aldrei gert þetta áður. Því urðu vonbrigðin ennþá meiri þegar ég startaði bílnum en enginn ljós Ég ákvað því að finna mér annað starf.....
Hugrún smiður mætti galvösk og til í allt inn á stofugólfið hjá sér til að setja saman borðstofuborð sem einhverjir almennilegir menn komu með heim til mín í dag. Hún fann leiðbeiningarnar í síðasta kassanum og hófst mjög spennt handa við að finna út úr þeim. Henni brá þó heldur í brún þegar hún sá þessa mynd . Móðgaðist Hugrún ofsalega fyrir hönd allra kvensmiða og þeirra sem halda að þær séu það. Við nánari skoðun með þungar brúnir og hugsanir um skrif til borðaframleiðandans rak hún augun í myndina fyrir neðan. Léttist þá brúnin heldur þegar rann upp fyrir henni að ekki var verið að tala um að konur gætu ekki sett þetta borð saman heldur að það ætti ekki að gera þetta einsamall. Skrúfjárnið var þó tekið fram því Hugrún er ofursmiður og síðan hófst hún handa við að skrúfa. Og skrúfaði og skrúfaði og skrúfaði... svo þurfti að nota hamar líka og bamm bamm ... gekk svona líka ljómandi vel... svo var skrúfað eilítið meira og var Hugrún orðin nokkuð sannfærð um að þarna væri hún á réttri hillu. "Festið fæturnar á borðplötuna" Þar með var gamanið búið. Ekki séns að vera einn að setja saman þrjú hundruð kílóa eikarborð. Eftir að hafa sparkað duglega í borðið, sem hafði auðvitað ekkert upp á sig nema auma tá, varð Hugrún að játa sig sigraða í annað skiptið í dag og þótti henni það heldur oft svona á einum degi. Þetta dúlleri olli miklum töfum vegna væntanlegrar heimferðar og þegar þetta er ritað á eftir að: Pakka og passa að gleyma ekki neinu, hlaða i-podinn, fara í sturtu og fjarlægja hár á viðeigandi stöðum, lita augabrúnir, skipuleggja aðeins betur veislustjórn, taka aðeins til eftir framkvæmdir dagsins og síðast en ekki síst liggja andvaka í a.m.k. klukkustund!
Hlakka til að sjá ykkur sem eruð inni í plani dauðans... hin bið ég bara vel að lifa og þið verðið með næst
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)