Þriðjudagur, 28. nóvember 2006
Gestabumbublogg
Nú situr undirrituð og bíður eftir því að leggjast undir hnífinn hjá snillingunum á Landsspítala Háskólasjúkrahúsi við Hringbraut (finnst einhverjum fleirum en mér þetta vera óþjált nafn ??) í næstu viku til að sækja þriðja afkomanda okkar hjóna sem, nota bene, er ekki vitað hvort verður þriðji drengurinn eða lítil harðstjórakona í karlaveldið sem fyrir er. ( Þá missi ég kannski völdin.....jeminn..)
En bumban er orðin stór og komin tími til fyrir leigjandann að flytja sig um set, úr þægindunum og út í hinn stóra, kalda heim. Það verður að vísu geysilega vel tekið á móti krílinu af tveimur stórum bræðrum ( 7 og 9 ára) sem bíða ofurspenntir eftir systkyninu og enn spenntari foreldrum, sem eru meira og minna búnir að gleyma hvað það er að annast ungabarn. Líklega sem betur fer, því annars hefðu þeir kannski alls ekki lagt í þetta! En hitt veit ég að þetta er allt saman þess virði.
En mikið verður nú gott að losna við stóru bumbuna, endalaust bakflæði og að ég tali nú ekki um bjúginn sem gerir afskaplega lítið fyrir mann - svona útlitslega séð allavega. Þið hafið öll séð hvernig ristin á litlum, vel búttuðum börnum er; svona bogadregin og mjúk og voðalega krúttleg. Svoleiðis er ég. Nema hvað, að þetta er einhvern veginn ekki nærri eins krúttlegt í skóstærð 39 eins og í skóstærð 16-18 ! Og fingurnir minna helst á auglýsingu frá SS pylsum. Ég er semsagt alveg ótrúlega sexý um þessar mundir (svona meira en venjulega sko !)
En hér er ég semsagt, búin að vera að þvo agnarlítil barnaföt, full vantrúar á því að nokkur mennskur einstaklingur komist í svona lítil föt, og voru þó fyrirrennarar þessa barns, og fyrri eigendur fatnaðarins, 17 og 18 merkur við fæðingu, sem telst víst ekki svo lítið !Nú, og svo er búið að baka nokkrar smákökusortir og eina brúna lagköku og versla fullt af jólagjöfum því það er útséð um að það að maður geri eitthvað af viti frá sjötta des. og fram að jólum, þegar búið er að rista mann á hol !
En eitt er eftir og það er að ávkeða nafn á blessað barnið. Það er að vísu til stelpunafn en við erum að verða uppiskroppa með strákanöfn. Allar tillögur eru vel þegnar. Símadömurnar í Intrum, þær Kolbrún og Jóhanna, eru mjög hallar undir nafnið Jóhann Kolbrúnn, svo má líka láta sér detta í hug, ef þetta verður strákur, nafnið Hugrúnn Óskar - hvernig líst ykkur á það? Eða kannski við þurfum að hugsa þetta aðeins betur...????
En hér er ég búin að láta gamminn geysa um mig og mína bumbu og hef ekki minnst einu orði á gestgjafann, hana Hugrúnu mína. Ég er greinilega ekki eins kurteis og kann mig ekki eins vel eins og hún Anna mín sem taldi, réttilega, mest viðeigandi að skrifa um Hugrúnu. Ég er bara svona illa upp alin held ég. En það verður ekki bætt úr því héðan af ;o)
Með bumbukveðju,
Bumbulína Jolie ( Jóna Bryndís)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 26. nóvember 2006
Sunnudagskrif
Úffff svaf nú allt of lengi. Spurði sjálfa mig hvort ég væri ekki alveg í lagi þegar ég vaknaði klukkan hálfþrjú. Búin að sofa í 13 og hálfan tíma. Svaraði mér að sama skapi að ég væri nú örugglega bara orðinn langþreytt eftir lítinn svefn í of langan tíma. Ákvað alla vega að fara ekki að hafa áhyggjur af svefnsýki strax.
Annars er ég nú öll að þiðna. Olían kláraðist á hitasísteminu á fimmtudaginn og kom voða duglegur maður um kvöldmatarleytið og setti meiri olíu og fiktaði eitthvað í júnitinu sem er hérna í kjallaranum hjá mér. Spurði mig líka eitthvað um hvar tankurinn væri og svoleiðis en ég vissi ekki baun. Sagðist bara vera frá Íslandi þar sem kæmi bara heitt vatn þegar maður skrúfaði frá krananum og frekari pælinga væri ekki þörf. Hann fann svo auðvitað olíutankinn enda með eindæmum klár og vel gefinn maður. Á föstudaginn kom ég svo heim úr vinnunni og var nú ekki búin að vera lengi heima þegar ég var orðin frosin inn að beini og barðist við sultardropann sem vildi ólmur detta af mínu fallega nefi. Ég sá þó ávallt við honum og endaði hann líf sitt smurður út á handarbakinu á mér. Ég varð þó að þola kuldann allt föstudagskvöldið og skreið upp í rúm í ullarsokkunum. Laugardagurinn bar með sér bjartsýni og aukna von að eitthvað myndi hitastigið hækka í íbúðinni. Ég vissi sko að þau væru líka að frjósa á eftri hæðinni og ég treysti því að þau myndu fara og öskra á einhvern saklausan olíumann að koma og redda þessu. Það gerðist þó ekki fyrr en um sexleytið sem annar olíumaður kom. Hann spurði mig líka helling af spurningum og sem betur fer er það nú í eðli mannsins að læra og var ég því ekki alveg jafn heimsk og síðast og gat sagt honum hvar olíutankurinn var. En það sem upp úr stendur frá þessari heimsókn var að hann lagaði sístemið og nú er heitt og gott í íbúðinni.
Það sem einnig olli mér nokkru hugarangri á meðan ísöldin stóð yfir var að ég komst auðvitað ekki í sturtu, ég var sem sagt ekki tilbúin að taka finnskt brúsubað á þetta allt saman. Ég var búin að hlakka svo til að fara í langa sturtu, krema mig frá toppi til táar með bláberjakremi og vera svo á náttfötunum að dúlla mér allan daginn. Þetta gat ég ekki gert fyrr en rúmlega sex. En sturtan var góð engu að síður og bláberjailminn lagði um allt eftir að baðinu var lokið.
Ég afrekaði samt að gera helling þrátt fyrir frosna útlimi á laugardaginn og mun ég nú deila því með ykkur. Vaknaði rétt fyrir ellefu, byrjaði daginn á að senda jákvæða strauma og hugsanir til Íslands (veit ekki alveg hvernig þannig fjarskiptabúnaður er hérna í Færeyjum, en það kemur í ljós), dreif mig svo í búðir og keypti smá svona jóladót. Kom svo heim og bakaði croissant og velti fyrir mér í leiðinni að þetta væri nú ekki gott að venja sig á en huggaði mig við það að ég hefði eina góða vinkonu sem ég gæti kennt um aukakílóin þar sem hún kom mér á bragðið. Croissantin voru ljúffeng að vanda og þeim var skolað niður með kaffi frá Kenýa. Síðan klippti ég niður greni og sullaði saman einum aðventukransi sem ég hef aldrei nennt að gera eftir að ég flutti úr foreldrahúsum. Mín var svona líka hissa á sjálfri sér og ánægð með árangurinn. Læt mynd fylgja með af meistarverkinu.
Að þessum öllu loknu eldaði ég svo lúffengan kjúlla og horði á Constant Gardener, sem var bara ágætis mynd. Svo þið haldið nú ekki að ég sé svona sló þá varði ég líka mörgum klukkustundum í að rabba við vini og vandamenn og það var gefandi og gott að vanda.
Játning dagsins: Ég er aftur að borða croissant en nú er pakkinn líka búinn og verður ekki keyptur aftur í bráð
Áskorun dagsins: Ég skora hér með á Bumbulínu Jolie að vera næsta gestabloggara. Umræðuefnið er algjörlega frjálst, má meira að segja tengjast óléttum eða bleyjum. Mæli með færslu fyrir komu nýja fjölskyldumeðlimsins og má hún sendast á hugrunb@internet.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 22. nóvember 2006
Gestablogg
Sælt veri fólkið.
Nú eru merk tímamót hjá henni Hugrúnu okkar. Sökum anna og ritstíflu sá hún sér ekki fært að blogga í þetta skiptið. Fékk hún því undirritaða til að verða fyrsta gestabloggarann á síðunni sinni. Ég verð nú að segja að ég varð strax upprifin og spennt fyrir verkefninu og nánast skellti á nefið á henni til að geta hafist handa. Viðfangsefnið finnst mér við hæfi að sé eigandi síðunnar og tók ég af henni loforð að hún skyldi birta pistilinn sama hvað í honum stæði.
Þið sem þekkið Hugrúnu, og kannski líka þið sem þekkið hana ekki en hafið komist í tæri við síðuna hennar, (dæmi: Bandaríska Alríkislögreglan eftir að Hugrún skrifaði nafn alræmdra hryðjuverkasamtaka í einn pistilinn sinn) sjáið að hún hefur einstakan hæfileika til að gera hlutina skemmtilega. Ein í útlöndum og þekkti ekki sálu gat þessi elska látið plönturæfil eða moppuskaft stytta sér stundirnar svo dögum skipti. Þetta er sjaldgæft og til eftirbreytni finnst mér. Mér finnast svona geðveilur líka afar skemmtilegar og í enn eitt skiptið sannaðist gamla máltækið "Líkur sækir líkan heim". Enda þótt við Hugrún höfum ekki þekkst lengi höfum við verið afar samrýndar síðan leiðir okkar lágu saman. Mætti nánast segja að við séum sambrýndar, nei nei nú er ég farin að bulla.
Meira að segja er ég ein fárra (tveggja til að vera nákvæm... Lára við rúlum!!) sem hef lagt land undir fót og heimsótt gripinn. Fannst það tilvalið ekki síður í ljósi þess að ég er hálffæreysk og skil mállýsku föður míns nokkuð vel. Æfinguna í að tala hana vantar mig þó alveg. Þá æfingu hefði ég gjarnan viljað hafa eftir að ég fattaði að ég var ítrekað búin að vara vinnufélaga Hugrúnar við henni í stað þess að biðja þau passa uppá hana. Ég er búin að biðja hana að leiðrétta mig við þau.
Jæja, þetta var nú skemmtilegt. Ég vil þakka Hugrúnu fyrir að treysta mér fyrir þessu verkefni.
Góðar stundir.
Anna Jóhannsdóttir
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 15. nóvember 2006
Fyndið í útvarpinu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 14. nóvember 2006
Þjónusta - hvað er nú það??
Það er ekki komið í tísku í Færeyjum að kassadömur eða piltar bjóði góðan daginn eða óski manni góðrar helgar eins og er orðinn almennur standard á Íslandi. Hér segir afgreiðslufólk bara akkúrat ekki neitt á meðan það rennir vörunum í gegnum blíbbið. Spyr bara hvort það eigi að taka akkúrat ef maður borgar með korti. Þessi pistill verður sem sagt helgaður þeim þjónustuslysum sem ég hef lent í þessa mánuði sem ég hef verið hér.
Skósmiðurinn
Ekki mikið um hann að segja nema hann var í fríi í heilan mánuð og er eini skósmiðurinn í Þórshöfn! Ég þurfti því að senda skóna til Íslands þar sem mér lá á að fá þá í lag.
Bifreiðaverkstæðið
Það er nú aðaldjókið. Það þurfti sem sagt að gera við afturljósin á bílnum mínum sem mér mistókst að gera við sjálfri. Til að byrja með þá þurfti ég að bíða í mánuð eftir að fá tíma. Svo fékk ég tíma á einhverjum fimmtudegi kl.átta. Eins og ég þekki frá Íslandi fór ég með lykilinn kvöldið áður og henti í póstkassa þarna... voða fínt í umslagi merktu bílnúmerinu og símanúmerinu hjá Bartal. Ég bjóst við að fá bílinn sama dag og var búin að lofa að sækja Önnu á flugvöllinn á föstudeginum. Seinnipartinn á fimmtudeginum hringdi Bartal en þeir höfðu bara ekkert komist í að kíkja á bílinn en við áttum að tékka aftur á föstudeginum. Það var sama svarið þá líka! Ég fékk svo bara lánaðan bíl til að sækja skvísuna á flugvöllinn. Var svo bíllaus alla helgina og mánudag, þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag! Þá fékk ég loksins að vita að þær gætu ekki gert við bílinn og ég þyrfti að fara með hann í umboð fyrir Nissan. Takk fyrir pent... gátu þeir ekki sagt það strax!! Til að kóróna allt saman sögðust þeir vera búnir að týna lyklinum af bílnum! Og hann hefur ekki fundist enn tæpri viku seinna. Ég er sem sagt búin að redda þeim númerinu hjá Ingvari Helgasyni svo það sé hægt að panta annan lykil!! Þvílíkir hálfvitar!! Og nei ég á ekki aukalykil!! Ég týni nefninlega aldrei lyklum og þarf þess vegna ekki aukalykil Já og ég fékk tíma á hinu verkstæðinu 11.desember! Ég er í alvörunni að spá í að opna verkstæði hérna sem er rekið eins og á að reka bílaverkstæði!
Hreinsunin
Ætlaði með buxur í hreinsun fyrir jólahlaðborð Intrum á föstudaginn. Ætlaði mér þetta á mánudaginn. Bitur reynsla sagði mér samt að biðja einhvern um að hringja fyrir mig áður til að tékka hvort að buxurnar yrðu tilbúnar í síðasta lagi á fimmtudegi ef ég kæmi með þær á mánudeginum. Sem betur fer gerði ég það því þurrhreinsivélin var biluð!! Hann sagðist nú samt geta þvegið þær fyrir mig en ég ákvað þá bara að henda buxunum sjálf í vél og pressa svo bara hjá mömmu!
Þannig að þjónustustigið er ekki mjög hátt hérna enda á ég nú frekar góðu að venjast að heiman og geðveikin hefur ekki ennþá náð hingað! En það þýðir víst lítið annað en að hlægja bara að þessu enda er ég farin að geta það eftir að hafa öskrað á nokkra vini og vandamenn vegna þessa.
Annars fer ég nú bara að lenda á klakanum ekki á morgun, ekki hinn heldur hinn og þá verður nú mikið húllumhæ. Jólahlaðborð á föstudagskvöldinu, matur hjá múttu á laugardaginn og tónleikar með Sufjan Stevens um kvöldið og svo örugglega eitthvað djamm í kjölfarið á því og svo bara eitthvað annað sniðugt og skemmtilegt. Hlakka alla vega mikið til
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 12. nóvember 2006
Ingimar
Ingimar var jarðaður í gær. Hann var uppeldisbróðir hennar ömmu minnar á Egilsstöðum. Hann var 84 ára og fékk að deyja án þess að vera orðinn mjög veikur enda var honum frekar illa við að láta krukka í sig. Minningar mínar um Ingimar eru allar mjög fallegar og yfir þeim er mikil ró enda geislaði frá honum einstök ró og mikill kærleiki. Hann kom alltaf í heimsókn til ömmu og afa þegar við komum til Egilsstaða. Hann sagði yfirleitt ekki mikið en samt var alltaf mjög augljóst ef hann var ekki á staðnum. Ég man líka eftir því að hafa farið í heimsókn til hans og þá gaf hann mér súkkulaði.
Mér fannst leiðinlegt að geta ekki mætt í jarðarförina hans en hugga mig við það að maður getur sent hlýja strauma og hugsanir til fólks hvar sem maður er í heiminum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 9. nóvember 2006
...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 7. nóvember 2006
Dáldið sein en hvet alla til að mæta!
Þuríður Arna greindist með illvíga flogaveiki í október 2004 og í kjölfarið fundust æxli í höfði hennar sem á þeim tíma voru greind góðkynja.Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki tekist að vinna bug á meini hennar og nú er svo komið að æxlið er skilgreint sem illkynja og útlit fyrir að frekari meðferðarúræði séu ekki fyrir hendi. Nú ætlum við að leggjast á eitt og safna fjármunum til að hún og foreldrar hennar geti átt góðar stundir saman.
Tónleikar
Til styrktar og heiðurs Þuríði Örnu Óskarsdóttur í Bústaðarkirkju Miðvikudaginn 8. nóvember kl 20.
Fram koma
Stebbi og Eyfi, Regína Ósk, Garðar Örn Hinriksson, Signý Sæmundsdóttir, Jóhann Friðgeir, Hanna Þóra og Ólöf Inga Guðbrandsdætur.
Ásamt
Guðmundi Sigurðssyni, Vilhelmínu Ólafsdóttur, Matthíasi Baldurssyni og Guðmundi S Sveinssyni
Kynnir verður
Anna Björk Birgisdóttir
Aðgangseyrir 2000 kr
Allt fé sem safnast á tónleikunum rennur óskert til Þuríðar Örnu og fjölskyldu hennar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 1. nóvember 2006
Ryksugan á fullu
Já nú er sko fjör á Snípuvegi. Uppi á eldhúsbekk liggja lambahryggur og læri frá Goða í afþýðingu. Það hefur nú aldrei gerst áður á mínu heimili. Á morgun mun ég svo læra að marinera svona flykki og ég er að missa mig úr spenningi... hef heldur aldrei lagt kjöt í mareneringu... svona er maður nú óþroskaður. En það var nú eitt af því sem var tilgangur þessarar ferðar, að læra helling af nýjum hlutum.
Anna er sem sagt væntanleg á föstudaginn og ég (eða réttara sagt hún) verð með níu manns í mat, sem sagt tíu með mér. Ég er búin að bjóða mig fram í að vaska upp og rétta saltið ef þarf, jafnvel að ég hætti mér í að skræla gulræturnar. Mér fannst ég nú þurfa að viðhalda makastefnu fyrirtækisins og bjóða mökum með líka. Þannig að það er allt á hvolfi í augnablikinu, verið að þrífa og taka til, pússa glös og hnífapör og æfa servíettubrotin.
Fór í Miklagarð í dag að versla hluta af því sem þarf í svona matarboð og komst að því að það er stórhættulegt að búa svona einn. Ég talaði svo mikið við sjálfa mig að ég hrökk alveg við þegar ég heyrði allt í einu í sjálfri mér. Til að bjarga mér út úr vandræðunum hringdi ég bara í Önnu þannig að þetta liti ekki jafn illa út fyrir mig. Næst ætla ég bara að vera með símann við eyrað og engan á hinni línunni til að spara símareikninginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 30. október 2006
Gestaþraut
Þetta er svona fyrir þá sem sakna mín mjög mikið og hafa ekki séð mig í fleiri mánuði, þ.e. þeir sem voru ekki inni í plani dauðans eða eru að koma í heimsókn á næstunni. Ef farið er á þennan link svona um níuleytið á morgnana eða milli fjögur og fimm um eftirmiðdaginn má jafnvel sjá mér bregða fyrir þarna á torginu á göngu til og frá vinnu.
Sá sem sér mig og getur sagt mér hvernig trefillinn minn er á litinn fær heimsókn næst þegar ég kem til landsins
http://www.atlantic.fo/webcam/webcam.asp?cam_id=5
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)