Mætt á svæðið

Komin aftur til Færeyja eftir yndislegt jólafrí á hinni eyjunni minni. Ég naut þess í botn að vera heima svona lengi og var eiginlega ekki tilbúin til að fara út aftur. En svo þegar ég var komin og búin að taka kast yfir því að einhver hafði keyrt utan í bílinn minn, hvað allir væru leiðinlegir ennþá og sofa smá varð lífið bara ágætt eftir allt saman. Ég er sem sagt uppfull af eldmóði að klára þetta verkefni mitt hérna næstu sjö mánuði, vinna eins og brjálæðingur en gleyma samt ekki að njóta lífsins þess á milli. Það verður spennandi að sjá hvað eldurinn endist lengi.

Það stefnir sem sagt allt í það að líf mitt verði frekar tilbreytingarlaust næstu vikur og mánuði og því var ég að velta fyrir mér hvað ég ætti að skrifa um hérna á þessu bloggi mínu. Mér dettur reyndar alltaf eitthvað skemmtilegt í hug rétt áður en ég sofna en er svo að sjálfsögðu búin að gleyma því daginn eftir. Hef velt fyrir mér hvort ég eigi að skrifa tilfinningadagbók, en þá fyrst myndu nú allir gefast upp á mér, ég er nefninlega mjög leiðinleg inni við beinið en get verið skemmtileg svona út á við. Ég hef líka verið að spá í að skrifa um málefni líðandi stundar, velja eitthvað af mbl.is eða dimma.fo og koma með djúpar pælingar en komst svo að því að ég nenni yfirleitt ekki að hugsa mjög djúpt, enda er ég alltaf með kúta á handleggjunum og kemst því ekki undir yfirborðið. Hef líka spáð í svona listabloggi þar sem ég skrifa sögur eða ljóð eða bara samhengislausan texta með fínum orðum. Held ekki. Gera grín að fólki? Hmmm það getur verið hættulegt. Ég get líka þóst eiga barn og farið að skrifa eins og það sé að skrifa sjálft. "Í dag ældi ég yfir mömmu." Það má líka vera með svona dularfullt blogg þar sem talað er í kringum hlutina mjög almennt og kannski bara ein manneskja veit hvað maður er að tala um.  Tja þetta verður spennandi... kannski verður það bara sitt lítið af hverju eða bara sama gamla röflið. Spurning um að taka bara Bibbu á Brávallagötunni á þetta og verða algjör tsjélling, skrifa um blúndur og löbera (sem minnir mig á það að ég hef bara einu sinni tekið fram hekludótið hérna). Bibba var reyndar töffari, ég er nú reyndar ekki góð í því. Enda væri nú meira við hæfi að taka Turillu en Bibbu fyrst ég er farin að hugsa um karaktera hjá Eddu Björgvins. Nú er ég til dæmis búin að skrifa helling um ekki neitt og er því að spá í að fara sofa og láta mér detta eitthvað sniðugt í hug í svefnrofunum svo ég geti gleymt því aftur.

Lifi rigningin!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband