Fimmtudagur, 19. október 2006
Af heimferð, brúðkaupi og plönum
Jæja nú hef ég engar afsakanir lengur á reiðum höndum, (enda eru þær hættar að vera reiðar). Hér kemur bloggið um þarsíðustu helgi. Ég er smá eftir á en ég mun bara stikla á stóru!
Ég settist upp í flugvélina (þetta er bara fyrir þig Lára mín) og flaug til Íslands. Á leiðinni sat ég og hugsaði um væntanlega veislustjórn og hripaði eitthvað niður þar að lútandi. Mamma tók svo á móti mér á Reykjavíkurflugvelli og eins og við var að búast var taskan mín auðvitað síðust úr vélinni. Það urðu miklir fagnaðarfundir þótt ég væri bara búin að vera burtu í rúma tvo mánuði. Það er nú alltaf gott að hitta mömmu sína. Stefnan var tekin á Kringluna þar sem við settumst Íslandsmet í hraðkaupum. Ég þurfti auðvitað að nota gjafabréfin sem ég hafði fengið frá vinnufélugunum í afmælisgjöf. Það varð smá drama þegar skósmiðurinn fann ekki skóna sem ég hafði sett í viðgerð á Íslandi þar sem skósmiðurinn í Færeyjum var í fríi allan september. Ég sá fram á það að þurfa að vera berfætt í brúðkaupinu!! Það reddaðist samt á endanum og skórnir höfðu verið í öruggri geymslu í "Kaupfélaginu". Ég og mamma hlupum á milli verslana þar sem við höfðum bara fimmtíu mínútur til að kaupa eftirfarandi: Kápu, stígvél, maskara, töfrapenna og sjampó. Þar sem ég er nú frekar pikkí á suma hluti og get ekki bara ráfað inn í hvaða verslun sem er og fundið eitthvað sem passar kom mér, og mömmu líka, mjög mikið á óvart þegar þetta tókst allt saman og við hlupum úr Kringlunni með fangið fullt af nýju dóti.
Ég var svo nýkomin heim til mömmu og pabba þegar vinkonur mínar tóku að streyma þangað til æfingar fyrir brúðkaupið á laugardeginum. Æfingin gekk bara vel og um níuleytið henti ég þeim út og brunaði á Háteigsveginn til að hitta nokkra úr vinnunni. Það var yndislegt kvöld í hópi góðra vina. Ég rankaði allt í einu við mér þegar klukkan var að verða fjögur og dreif mig heim að sofa.
Klukkan 10.30 daginn eftir var ég mætt í klippingu og litun hjá Emilíu og þar mætti einnig brúður dagsins í greiðslu. Þegar ég var orðin fín og flott fór ég heim að hafa mig til fyrir kirkjuna og einnig að undirbúa enn frekar veislustjórnina. Fór svo í yndislega athöfn í kirkjunni þar sem Halldóra vinkona var auðvitað aðalskvísan. Stórglæsileg brúður!! Ég fór svo heim aftur eftir kirkju og hafði smá tíma heima áður en veislan hófst. Veislustjórnin tókst bara ágætlega og maturinn var æðislegur. Við vinkonurnar skemmtum okkur konunglega en við vorum nú bara tvær sem höfðum orku í að kíkja í bæinn eftir brúðkaupið.
Sunnudagurinn fór svo að mestu í að njóta þess að vera með fjölskyldunni. Kjartan og Juliana komu í mat til mömmu og pabba og við sátum bara og kjöftuðum þangað til ég fór í heimsókn til Siffu. Á mánudeginum fór ég svo niður í vinnu og hitti vinnufélagana og svo var bara kominn tími til að koma sér út á völl og taka flugið til Færeyja aftur. Þetta var því mikið prógram en samt voða notalegt að koma aðeins heim. Var samt alveg til í að fara aftur í rólegheitin í Þórshöfn.
Síðan þetta var er ég bara búin að vera voða róleg. Bartal hjálpaði mér að setja saman blessað borðið en ég hef nú ekki alveg lagt iðnaðarmanninn í mér á hilluna þar sem ég er búin að hengja upp rimlagardínur alveg ein og sjálf. Ég er líka reyndar að drukkna í vinnu og það eru einfaldlega ekki nógu margir klukkutímar í sólarhringnum til að gera allt sem ég þarf að gera. En það stendur nú allt til bóta með ráðningu nýs starfsmanns á skrifstofuna hjá okkur.
Svefnleysi hefur líka hrjáð mig eilítið en það er bara sökum stressssss (hvað eru mörg s í því?) og hugsana sem leyta á mig þessa dagana. Svo styttist nú óðum í næstu heimsókn því nú eru bara tvær vikur þangað til Anna vinkona kemur til mín í gleðina. Ég hef nú engar áhyggjur af því að okkur muni leiðast hætis hót.
Jæja ég veit að þetta var ekkert sérstaklega skemmtilegt blogg en vona að þið takið viljann fyrir verkið og það er aldrei að vita nema næsta blogg verði eilítið skemmtilegra.
Get ekki sett inn myndir í augnablikinu... eitthvað klikk í kerfinu.... þannig að þær koma síðar
Athugasemdir
fínt blogg systa, aldrei leiðinleg blogg frá þér, láttu þau bara koma.... vertu hress, ekkert stress, bless
Kjartan (IP-tala skráð) 19.10.2006 kl. 19:18
Fannst þetta bara ansi skemmtilegt blogg vina mín. Gott að þú skemmtir þér á klakanum og gott að veislustjórnin gekk vel ;)
Hafðu það gott elskan mín..
Kossar og knús..
Íris mega
Íris Dögg (IP-tala skráð) 19.10.2006 kl. 21:14
Góðan daginn - bara mjög skemmtilegt blogg! Gott að fá svona skýrslu ;o)
Lára (IP-tala skráð) 20.10.2006 kl. 08:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.