Fimmtudagur, 5. október 2006
Tvöföld uppgjöf!!
Ja nú er illt í efni... ég hef tvisvar þurft að játa mig sigraða í dag og geri ég það nú aldrei fyrr en í fulla hnefana! Fyrst var það Hugrún bifvélavirki eða réttara sagt Hugrún rafvirki sem hófst handa við að reyna að koma ljósum aftan á bílinn. Hann er alveg ljóslaus að aftan og það er víst bannað að aka um á svoleiðis faratæki hér sem annars staðar. Eftir nokkur símtöl við pabba var ég orðin útlærð í því hvernig ætti að sjá þegar öryggi væri farið og hvað tvípóla perur væru. Já hlægið þið bara... ég vissi þetta ekki fyrir! Svo brunaði ég á bensínstöðina og keypti perur og öryggi í massavís og skipti um allt heila klabbið. Ég var svaka ánægð með afraksturinn því ég hef aldrei gert þetta áður. Því urðu vonbrigðin ennþá meiri þegar ég startaði bílnum en enginn ljós Ég ákvað því að finna mér annað starf.....
Hugrún smiður mætti galvösk og til í allt inn á stofugólfið hjá sér til að setja saman borðstofuborð sem einhverjir almennilegir menn komu með heim til mín í dag. Hún fann leiðbeiningarnar í síðasta kassanum og hófst mjög spennt handa við að finna út úr þeim. Henni brá þó heldur í brún þegar hún sá þessa mynd . Móðgaðist Hugrún ofsalega fyrir hönd allra kvensmiða og þeirra sem halda að þær séu það. Við nánari skoðun með þungar brúnir og hugsanir um skrif til borðaframleiðandans rak hún augun í myndina fyrir neðan. Léttist þá brúnin heldur þegar rann upp fyrir henni að ekki var verið að tala um að konur gætu ekki sett þetta borð saman heldur að það ætti ekki að gera þetta einsamall. Skrúfjárnið var þó tekið fram því Hugrún er ofursmiður og síðan hófst hún handa við að skrúfa. Og skrúfaði og skrúfaði og skrúfaði... svo þurfti að nota hamar líka og bamm bamm ... gekk svona líka ljómandi vel... svo var skrúfað eilítið meira og var Hugrún orðin nokkuð sannfærð um að þarna væri hún á réttri hillu. "Festið fæturnar á borðplötuna" Þar með var gamanið búið. Ekki séns að vera einn að setja saman þrjú hundruð kílóa eikarborð. Eftir að hafa sparkað duglega í borðið, sem hafði auðvitað ekkert upp á sig nema auma tá, varð Hugrún að játa sig sigraða í annað skiptið í dag og þótti henni það heldur oft svona á einum degi. Þetta dúlleri olli miklum töfum vegna væntanlegrar heimferðar og þegar þetta er ritað á eftir að: Pakka og passa að gleyma ekki neinu, hlaða i-podinn, fara í sturtu og fjarlægja hár á viðeigandi stöðum, lita augabrúnir, skipuleggja aðeins betur veislustjórn, taka aðeins til eftir framkvæmdir dagsins og síðast en ekki síst liggja andvaka í a.m.k. klukkustund!
Hlakka til að sjá ykkur sem eruð inni í plani dauðans... hin bið ég bara vel að lifa og þið verðið með næst
Athugasemdir
Hehehehe...Hugrún iðnaðarkona. Vona að plan dauðans nái til okkar á mánudaginn... ;o)
Jóna Bryndís (IP-tala skráð) 6.10.2006 kl. 09:27
hahaha sem eruð inní plani dauðans, hinir verða bara í kuldanum ;) sama er mér hvort ég verði í hitanum eða kuldanum hjá þér þessa helgi, ég verð í svo miklum hita hjá þér helgina á eftir hahahaha ;) Þú losnar ekkert svona auðveldlega við mig kona ;) Góða Ferð og njóttu Íslands.. "ÍSLAND SÆKJUM ÞAÐ HEIM"
Hrefna Ýr (IP-tala skráð) 6.10.2006 kl. 10:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.