Dýralífið

Ég held stundum þegar ég geng um göturnar hérna eða ligg andvaka að ég sé stödd í sveitinni. Ég get alla vega fullyrt það að hér er mun meira af dýrum utandyra en ég á að venjast í minni heimabyggð. Ég hef sem sagt ekki kannað eign gæludýra sem halda sig innandyra ennþá en það er kannski verðugt rannsóknarverkefni.

Byrjum á blessuðum hundunum. Ég held að allir í Þórshöfn eigi eitthvað sem gengur undir nafninu hundur. Mismunandi að stærð og lit en allir loðnir og þeim frábæra eiginleika gæddir að geta gelt. Hver fattaði eiginlega upp á því? Fyrir mér er þetta bara hávaði og svo bregður mér alltaf svo mikið. En þeir þurfa víst líka að tjá sig. Þessi blessuðu grey ráfa hér um göturnar eins og herforingjar. Þeir virðast líka eignast vini í sínum hópi, því stundum spássera þeir tveir og tveir saman. Þeir virðast vera að kanna umhverfið og það getur verið að þeir finni stundum ætan bita í ekki nógu vel lokuðum ruslapoka. Þeir eru nú flestir dáldið vinalegir og virða mig oftast ekki viðlits enda ég eflaust ekki merkileg í þeirra augum. Mér finnst samt ekki sniðugt þegar þeir koma í áttina til mín því ég hef lært af biturri reynslu að maður klappar ekki ókunnugum hundum og mér finnst svo bjánalegt að ganga bara fram hjá þeim þannig að nú heilsa ég þeim bara kurteislega "Hæ voffi" og læt það duga. Það var samt einn sem ég mætti í dag sem gelti að mér og urraði. Mér stóð nú ekki á sama þangað til ég sá að hann sveiflaði skottinu og einhvern tíma var mér sagt að þá væru þeir glaðir. Ákvað því að hann væri að stríða mér og lét hann ekki slá mig út af laginu en heilsaði honum eins og öllum hinum. Enda gerði hann engar tilraunir til að ráðast á mig, kunni greinilega að meta kurteisina sem ég sýndi honum.

Ég hef rekist á ýmsar gerðir af skordýrum líka. Bjallan fræga sem öðlaðist þann heiðurssess að fá heila bloggfærslu út af fyrir sig mun seint líða mér úr minni. Önnur skordýr hafa nú haldið sig utandyra að frátaldri einni kónguló sem tók sér bólfestu á handklæðinu mínu um daginn. Hún fékk nú bara að fara út aftur á stétt. Snigla hef ég séð þónokkra og svo bara svona klassískar margfætlur, hrossaflugur, mýflugur, venjulegar flugur og þá held ég að það sé upptalið.

Það sem kom mér þó mest á óvart hérna, en ef ég hefði staldrað við og hugsað eilítið hefði ég getað sagt mér það sjálf, er hvað fuglalífið hér í bænum er mikið og fjölbreytt. Ég hugsa oft um Fuglabók Fjölva sem ég held að bróðir minn hafi fengið fermingargjöf og ekki enn fundið not fyrir. Ég ætla að láta hann taka hana með sér þegar hann kemur í heimsókn... eða hvort það var Fiskabók Fjölva... hún var alla vega frá Fjölva, það er á hreinu! Eníhú... hér er a.m.k. mikið af fuglum og líkt og hundarnir eru þeir líka ansi háværir. Það fer nú samt mest fyrir helvítis mávaógeðunum sem garga alltaf eins og verið sé að murrka úr þeim lífið. Þeir vöktu mig t.d. í morgun þar sem þeir voru að rífast og slást yfir ruslapoka sem hafði opnast og þeir voru búnir að dreifa innihaldinu út um allt. Þeir eru ekki í miklu uppáhaldi húsfreyjunnar á Snípuvegi! Það eru reyndar líka litlir krúttlegir fuglar inn á milli mávanna en einhvern veginn týnast þeir í frekju og yfirgangi mávanna. Ég óska hér með eftir fuglasérfræðingi í heimsókn til að kenna mér að þekkja þetta allt í sundur. Hann mun fá frítt húsnæði og jafnvel serjós í morgunmat ef hann stendur sig vel.

Já og svo hef ég líka séð nokkra ketti. Ekkert um þá að segja!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hver veit nema maður birtist einn daginn með fuglabók og kíki í heimsókn til þín. Bíddu bara :)

Anna Jóhanns (IP-tala skráð) 15.8.2006 kl. 09:22

2 identicon

þú gætir vakið áhuga hjá Sir Attinborgoughhh á þessu með hundana

Lára (IP-tala skráð) 15.8.2006 kl. 11:19

3 identicon

Var einmitt í miklum dýrahugleiðingum í dag. Brósi minn vill endilega að ég ættleiði kattarkvikindið hans!Humm veit ekki alveg. Er samt voða krútt.....en held ekki.

Valdís (IP-tala skráð) 15.8.2006 kl. 18:45

4 identicon

Voff !

Jóna Bryndís (IP-tala skráð) 16.8.2006 kl. 10:48

5 identicon

Það sem er verst við svona fjörugt hundalíf er að það er hundaskítur út um ALLT !!!Nema færeyjingar séu svo móðins að hirða upp eftir hundana sem ég efast stórlega um. En þá verður marr bara að passa sig að slæda ekki í kúknum, á Indlandi erum við að tala um kúamykju útá gangstétt sem getur oft orðið ansi slipperí :)

Beta (IP-tala skráð) 16.8.2006 kl. 11:08

6 identicon

Stóra Fiskabók Fjölva

Kjartan (IP-tala skráð) 16.8.2006 kl. 22:37

7 identicon

Það sem mig langar að vita er hvort þeir svari kveðjunni þinni eða hun(d)si þig bara alveg? Bíddu bara, það kemur einhver með fuglabókina til þín :)

Sigga Elka (IP-tala skráð) 16.8.2006 kl. 23:38

8 identicon

Loksins nún veit ég af síðunni þinni ;) fylgist núna mneð þér í gríð og erg ;) hlakka til að lesa meira af þér stúlkuSnót kv.Hrefna °´Yr

hrefna ýr (IP-tala skráð) 18.8.2006 kl. 16:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband