Sunnudagur, 6. ágúst 2006
Ein og yfirgefin (sunnudagur 30.07.2006)
Ég vaknaði um hálfþrjú. Heiðdís var auðvitað örugglega löngu vöknuð eða hún var alla vega farin eitthvert. Ég sturtaði mig og ákvað svo að labba niður í bæ. Í dag leit allt, allt öðruvísi út. Ekki eins margir á ferli og viti menn... sól og blíða. Ég sá loksins almennilega hvernig allt lítur út hérna. Ekki varð ég fyrir vonbrigðum með það sem fyrir augu bar. Gömul ferlega krúttleg hús, höfnin alveg ferlega sjarmerandi og mér leið eins og ég væri stödd inn í ljósmynd af Reykjavík í kringum 1950. Mikið af torfþökum, fyllibyttur við höfnina og allt lokað eins og vera ber á sunnudögum. Ég naut þess að labba í sólinni og fór í góðan göngutúr. Ég á samt nokkuð í land með að vita hvert ég á að fara þar sem ég er nú ekki sú ratvísasta í heiminum en þess vegna er það gott fyrir mig að vera á svona litlum stað, þetta er ekkert ofboðslega flókið. En kortið verður samt ekki tekið úr töskunni alveg strax, það er alveg á hreinu! Fór svo á bensínstöðina og keypti í matinn og kom svo heim að blogga. Á morgun er ég svo að fara að hitta vinnufélagana og ég þarf að biðja Jákup um að græja ýmislegt fyrir mig og er þar efst á lista nettenging heim.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.