Annar í Ólafsvöku (laugardagurinn 29.07.2006)

Ég svaf eins og ungabarn til tvö... alveg búin á því eftir stress síðustu vikna og allt of litlum svefni. Og viti menn... ég opna hurðina á herberginu og það fyrsta sem ég sé er maðurinn að sækja eitthvað dót :O) Mér brá svo að ég hrökklaðist aftur inn í herbergi og beið þangað til hann var farinn. Heiðdís var þá vöknuð og hafði hleypt honum inn. Eftir sturtu fórum við svo að leita að bensínstöð til að við gætum keypt klósettpappír fyrir þynnkudrulluna og eitthvað að borða. Bensínstöðin fannst og við komum heim klyfjaðar af óhollustu og pappírnum góða. Við fórum svo í bæinn með Sillu og okkur tókst að lenda á tveimur trúarsamkomum á hálftíma!! Þetta er út um allt!! Við stöldruðum þó ekki lengi við, þar sem við þurftum alltaf að hlægja svo mikið.

Stelpurnar voru í kastinu því ég var alltaf að hitta einhvern sem ég þekkti. Ég hitti Magga frænda og Siggu frænku, alla Íslendingana sem höfðu verið með mér í leigubílnum og gamlan skólabróður. Við settumst svo inn á bar, fengum okkur í glas og ræddum mál hjartans í nokkra klukkutíma. Þegar við vorum að fara fékk Silla yfir sig heilan bjór sem einhver gaur ætlaði að skvetta á einhvern annan gaur en hitti ekki betur en svo að Silla fékk allt á sig. Hún angaði auðvitað eins og versti róni en við höfðum sem betur fer verið á leið heim að skipta um föt og græja okkur fyrir kvöldið. Kvöldmaturinn var frönsk pylsa, mjög ljúffeng.

Eftir skveringu og drykkju vorum við tilbúnar til að skella okkur aftur í fjörið. Við byrjuðum á því að taka þátt í fjöldasöng sem lætur Árna Jónsen og brekkusönginn virka sem pínulítið gítarpartý. Þetta var alveg geggjað. Það voru sungin 18 lög og það var ekkert mál að syngja með þótt við þekktum ekkert lagið nema tvö. Bara svona týpískir slagarar. Okkur fannst reyndar bjánalegt að það vantaði alveg öll fagnaðarlæti eftir hvert lag... allir stóðu bara og biðu eftir næsta lagi. Að þessu loknu tóku svo allir höndum saman og dönsuðu Vikivaka um allt. Það var ekki hægt að kalla þetta hringdans þar sem hringurinn liðaðist bara um allt svæðið. Tvö skref til vinstri og eitt til hægri.... ossalega skemmtilegt.

Ég, Silla og Heiðdís fórum svo á einhvern bar þar sem ég spjallaði aðeins við dverg, sem var svona frekar spúkí. Jájá litli maðurinn er líka í Færeyjum.... Silla yfirgaf samkvæmið á þessu stigi en við Heiðdís skelltum okkur á Rex (já líka til hérna) þar sem einhver hljómsveit var að spila og við vorum einu manneskjurnar sem dönsuðum ekki í haldi. Við höfðum nú auðvitað lúmskt gaman að því að dansa eins og fífl innan um öll pörin sem höfðu greinilega farið á nokkur dansnámskeið eða lært að dansa hjá afa. Eftir ball var það pizzasneið á Pizza 67 og svo löbbuðum við heim í grenjandi rigningu. Við vorum alveg gegndrepa þegar við komum heim en þetta var samt voða hressandi og notalegt. Burstuðum tennurnar og lögðumst til svefns.

Veður: rigning og þoka


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband