Sunnudagur, 6. ágúst 2006
Fyrsti dagur í Þórshöfn (föstudagurinn 28.07.2006)
Jæja þá er skvísan lent í Þórshöfn. Ég sé það að til að byrja með mun þetta blogg vera í tannburstunar- og máltíðarformi, þar sem allt er svo spennandi og skrýtið. Ég mun reyna að segja skilmerkilega frá og greina frá því sem gerst hefur síðan ég kom í þetta fyndna land.
Ég verð nú að viðurkenna það að ég barðist við tárin í flugvélinni. Fannst svo skrýtið að vera að fara út í eitthvað sem ég vissi ekkert, og veit reyndar ekki enn, hvernig yrði. Þetta var tilfinnig blönduð söknuði, spenningi og hræðslu við að reyna eitthvað nýtt. Ég sofnaði nú samt í flugvélinni og vaknaði rétt áður en ég lenti. Og viti menn... þoka og rigning í Færeyjum! Ég brosti nú með sjálfri mér því þetta var nákvæmlega eins og ég var búin að ímynda mér það, þ.e. veðrið. Það sást ekkert fyrir þoku og allt í einu birtist bara flugbrautin upp úr þokunni. Þegar ég hafði nú fast land undir fótunum fór ég að velta fyrir mér hvernig þetta yrði nú með rútuna. Það var auðleyst þar sem stóð á skilti að næsta rúta færi eftir einn og hálfan tíma. Ekki fannst mér það nú skemmtileg tilhugsun að þurfa að hanga á flugvellinum í þennan tíma. Það voru greinilega fleiri óþolinmóðir Íslendingar þarna og það endaði með því að við vorum sex sem tókum saman leigubíl. Við rétt komumst fyrir með allan farangurinn en það var nú voða gott að hafa þetta fólk með sér, svona til halds og trausts. Ég fór út á Hótel Havnia og hringdi í framkvæmdastjórann sem ætlaði að sækja mig og koma mér einhvers staðar fyrir. En nei... þá var hann bara að fara í bæinn með fjölskyldunni sinni og spurði hvort ég gæti ekki komið dótinu einhvers staðar fyrir og hann myndi hringja í mig á eftir. Ég játti því auðvitað en fékk ekki blíðar móttökur á hótelinu þegar ég spurði hvort ég mætti geyma dótið mitt hjá henni. Þar sem ég var ekki gestur vildi hún ekki geyma dótið fyrir mig. Hún sagði mér að fara niður á höfn þar sem væri farangursgeymsla. Ég varð svo pirruð að ég spurði hana ekki einu sinni hvar höfnin væri eða hvernig væri best að komast þangað, heldur strunsaði bara út með 45 kg í eftirdragi. Þegar ég kom út fór ég nú að skoða kortið en varð litlu nær. Þá komu hjón sem spurðu hvort þau gætu aðstoðað mig. Ég rakti þeim raunir mínar og þau sögðu þá að það væri ekki séns að komast á höfnina þar sem þar væri svo mikið af fólki vegna róðrakeppninnar. Þau bentu mér aftur á móti á annað hótel sem var þarna rétt hjá og ég dröslaðist ... orðin kófsveitt... með hafurtaskið þangað. Stelpan í lobbýinu hefur kannski séð hvað ég var búin á því því hún bauð mér að geyma töskurnar bak við deskið hjá sér. Ég held að ég hafi sjaldan verið eins þakklát... langaði mest að hoppa í fangið á henni og knúsa hana. Ég hélt nú samt aftur af mér.
Nú var þungu fargi af mér létt, bæði andlega og líkamlega. Ég hringdi í Örnu og eftir nokkrar mínútur var ég búin að finna hana, Nonna og Sillu. Það var voða ljúft að sjá kunnugleg andlit og var ég á röltinu með þeim í nokkurn tíma. Við hlustuðum á samkomu hjá hernum sem innihélt mikið af hallelújum og amenum. Það var alltaf verið að bjóða mér sopa af ákavíti en ég get nú ekki sagt að sá drykkur sé í miklu uppáhaldi hjá mér. Heiðdís bættist svo í hópinn en hún hafði komið fljúgandi frá Danmörku.
Það var æðislegt að sjá hvað það voru margir í þjóðbúningnum og gaman að sjá hvað fólk hefur meira val um útlit hans heldur en heima. Konur og karlar og allt niður í litla krakka klæddust þessum glæsilegu búningum og ég var undrandi hvað það eru margir sem eiga svona. Við gengum svo bara um og skoðuðum fólksmergðina þangað til samferðafólk mitt þurfti að fara í matarboð. Ég rölti því ein um þangað til ég hitti tvær stelpur sem voru með mér í leigubílnum. Ég fór og settist með þeim á pöbb þangað til Jákup hringdi og sagðist vera á leiðinni. Hann kom svo og sótti mig og dótið og fór með mig í íbúðina.
Íbúðin er mjög stór og fín. Fyrri leigjendur eru samt ekki alveg fluttir út þannig að ég veit ekki hvað verður skilið eftir eða hvað þau taka. Ég fékk samt vægt taugaáfall nokkrum mínútum eftir að ég kom. Allt í einu stóð blindfullur maður á stofugólfinu. Hann sagði eitthvað á færeysku sem ég skildi ekki en svo skipti hann yfir í ensku og sagðist þurfa að sækja svolítið. Ég fékk það svo upp úr honum að hann væri fyrri leigjandi. Síðan þá er hann búinn að koma tvisvar í viðbót og segir alltaf bara "I have to get something" Hehe en ég er alla vega hætt að vera hrædd við hann. Ég get samt ekki beðið eftir að þau flytji alveg út svo ég geti farið að græja íbúðina eins og ég vil hafa hana. Ég er búin að sjá fullt af búðum með flottum hlutum sem mig langar í.
Um kvöldið fórum við svo aftur í bæinn og vorum bara á almennu flakki. Gengum bara um og skoðuðum fólkið. Heiðdís vann svo forláta uppblásið sverð með því að veiða plastönd og gengdi það sverð stóru hlutverki í fíflalátum kvöldsins. Við vorum samt bara frekar rólegar og vorum komnar heim um þrjúleytið sem þykir nú ekkert sérstök frammistaða á Ólafsvöku.
Veður: rigning og þoka
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.