Fimmtudagur, 3. ágúst 2006
Óbjóður og helvítis hundkvikindi
Ég þoli ekki pöddur og hunda sem gelta á nóttunni!! Ég lagðist í mesta sakleysi mínu til svefns í gær og reyndi eins og ég gat að sofna... En eins og svo oft áður var hugurinn á fullu að velta sér upp úr mismerkilegum hlutum
Allt í einu heyri ég eitthvað krafs. Þetta hljómaði dálítið eins og það væri lítil mús í horninu hjá rúminu mínu en þótt ég hreyfði mig heyrðist hljóðið alltaf áfram. Því ákvað ég að þetta væri ekki mús þar sem þær eru nú þekktar fyrir að vera hvumpnar. Ég tók því á honum stóra mínum eftir að hafa legið skjálfandi í rúminu í nokkrar mínútur og fór fram úr og kveikti ljósið. Og martröðin mín rættist! Í horninu lá einhver sú stærsta bjalla sem ég hef nokkurn tíma séð... eða ég veit ekkert hvað þetta var... svona fimmfaldur járnsmiður. Helvítið hafði þá lent á bakinu og til marks um stærðina heyrðist krafsið þegar kvikindið var að reyna að finna fótfestu að nýju. Ég fékk ógeðishroll, fór fram og náði í glas og setti yfir óbjóðinn. Ég þorði svo ekki að gera neitt meira og skildi glasið bara eftir yfir skrímslinu í. Lagðist svo aftur til svefns og sá fyrir mér að kvikindið myndi kalla á hjálp og eftir smá tíma myndi pödduherinn koma til að bjarga félaga sínum og ég myndi missa vitið
Og það var ekki allt búið enn... eftir háskalega föngun á skrímslinu byrjaði einhver helvítis hundur að gelta! Hann gelti alltaf bara einu sinni og lét svo líða 10-15 sekúndur á milli gelta. Bara svona til að mér myndi bregða í hvert skipti. Ég var alltaf að bíða eftir því að samviskusamur eigandi kæmi og segði helvítinu að þegja en íbúarnir sváfu á sínu græna og enginn skipti sér af hundinum. Kannski er þetta bara hluti af umhverfishljóðunum hér í Þórshöfn... hver veit?? Bara svona eins og ýlfrið í vindinum?? Ég ætla að minnsta kosti að sparka í þennan hund næst þegar ég rekst á hann... verst að ég veit ekki hvaða hundur þetta er... þannig að ég mun bara sparka í alla hunda sem ég rekst á til öryggis!!
Er þess vegna frekar úldin í dag og er þar að auki með hælsæri þar sem ég ákvað að það væri rosalega sniðugt að fara berfætt í skónum. Stundum er maður bara hálfviti!
Ég er annars enn að bíða eftir tengingunni heim og að bíða eftir að konan sem á íbúðina komi og máli og að bíða eftir því að ég kunni færeysku. Bíða eftir því að vera búin að koma íbúðinni í stand, bíða eftir að prófið verði búið en mest er ég auðvitað að bíða eftir því að hún Lára mín komi til mín!! Það verður sko ekki leiðinlegt hjá okkur systrum. Ég er sko búin að panta borð fyrir okkur á Toscana en þangað ætlum við á afmælisdaginn minn! Annað verður skilið eftir opið!
Leiter!
Athugasemdir
Snillingur!!! ;o)
Lára (IP-tala skráð) 3.8.2006 kl. 17:15
heyrðu Hugrún, gæti þetta verið KAKKALAKKI!!!!!!!
þú ættir kannski að tala við frúnna sem á íbúðina og þetta með helv.... hundinn - hann er örugglega með HUNDAÆÐI
ekki það að ég sé eitthvað að hræða þig..........
en gaman að heyra að allt gangi vel :)
harpa heimisdóttir, 3.8.2006 kl. 22:10
Láttu munnhörpudýrið ekki hræða þig :)
En þú ert snilldarpenni og við bíðum spenntar eftir næstu færslu. Engin pressa sko.... hehehe
Anna Jóhanns (IP-tala skráð) 4.8.2006 kl. 08:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.