Mánudagur, 15. janúar 2007
Mánudagsmyrkur
Ef að Íslendingar eru að skýla sér á bak við skammdegisþunglyndi yfir dimmustu mánuðina þá ættu nú Færeyingar að vera enn þunglyndari. Það er ekkert eðlilega dimmt hérna! Hér eru bara ljósastaurar öðru megin á götunni og upplýst bílastæði og gangstéttar eru með öllu óþekkt fyrirbæri. Þetta er kjörin staður fyrir þjófa og árásarmenn því út um allt er myrkur og þeir gætu læðst upp að manni án þess að maður sæi þá. Blessunarlega eru nú miklu minni líkur á að á mig verði ráðist hérna en heima enda Færeyingar upp til hópa friðsælir nema einstaka fyllibyttur og geðsjúklingar sem ekki er til stofnun fyrir.
Mér finnst myrkrið bæði heillandi og ógnvænlegt. Ógnvænlegt því ég er svo hryllilega náttblind og sé ekki tærnar á mér ef ekki er ljósastaur í grenndinni og mér finnst ég svo varnarlaus þegar ég sé ekki neitt. Bíð alltaf eftir hálkubletti eða polli. Hins vegar finnst mér myrkrið líka heillandi. Einmitt það að sjá alls ekki neitt. Horfa eitthvað út í loftið og sjá ekki móta fyrir fjalli í fjarska eða báti sem siglir inn fjörðinn. Í myrkrinu finnst mér líka svo gott að vera bara inni með kertaljós og gott rauðvín og hafa það huggulegt. Ég hlakka samt til þegar fer að birta, þá verður kannski auðveldara að vakna á morgnana. Ég þarf alla vega ekki að hafa áhyggjur af því að krakkarnir á efri hæðinni pirri sig á endalausri hringingu í vekjaraklukkunni minni því þau eru jafn slæm og ég... ef ekki verri. Þeirra klukka hringir stundum á meðan ég vakna, fer í sturtu, blæs á mér hárið og hún hringir stundum enn þegar ég fer í vinnuna. Það er nú einu sinni þannig með lestina sem maður hefur... manni líður eilítið betur ef einhver annar er verri en maður sjálfur.
Annars sá ég stelpu í ræktinni í dag í bol sem hafði greinilega verið gerður fyrir lagasetninguna varðandi samkynhneigða. Á bolnum stóð eitthvað í þá veruna: "Það skiptir ekki máli hvern maður elskar" Mig langaði að faðma hana.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.