Færsluflokkur: Bloggar
Þriðjudagur, 15. ágúst 2006
Dýralífið
Ég held stundum þegar ég geng um göturnar hérna eða ligg andvaka að ég sé stödd í sveitinni. Ég get alla vega fullyrt það að hér er mun meira af dýrum utandyra en ég á að venjast í minni heimabyggð. Ég hef sem sagt ekki kannað eign gæludýra sem halda sig innandyra ennþá en það er kannski verðugt rannsóknarverkefni.
Byrjum á blessuðum hundunum. Ég held að allir í Þórshöfn eigi eitthvað sem gengur undir nafninu hundur. Mismunandi að stærð og lit en allir loðnir og þeim frábæra eiginleika gæddir að geta gelt. Hver fattaði eiginlega upp á því? Fyrir mér er þetta bara hávaði og svo bregður mér alltaf svo mikið. En þeir þurfa víst líka að tjá sig. Þessi blessuðu grey ráfa hér um göturnar eins og herforingjar. Þeir virðast líka eignast vini í sínum hópi, því stundum spássera þeir tveir og tveir saman. Þeir virðast vera að kanna umhverfið og það getur verið að þeir finni stundum ætan bita í ekki nógu vel lokuðum ruslapoka. Þeir eru nú flestir dáldið vinalegir og virða mig oftast ekki viðlits enda ég eflaust ekki merkileg í þeirra augum. Mér finnst samt ekki sniðugt þegar þeir koma í áttina til mín því ég hef lært af biturri reynslu að maður klappar ekki ókunnugum hundum og mér finnst svo bjánalegt að ganga bara fram hjá þeim þannig að nú heilsa ég þeim bara kurteislega "Hæ voffi" og læt það duga. Það var samt einn sem ég mætti í dag sem gelti að mér og urraði. Mér stóð nú ekki á sama þangað til ég sá að hann sveiflaði skottinu og einhvern tíma var mér sagt að þá væru þeir glaðir. Ákvað því að hann væri að stríða mér og lét hann ekki slá mig út af laginu en heilsaði honum eins og öllum hinum. Enda gerði hann engar tilraunir til að ráðast á mig, kunni greinilega að meta kurteisina sem ég sýndi honum.
Ég hef rekist á ýmsar gerðir af skordýrum líka. Bjallan fræga sem öðlaðist þann heiðurssess að fá heila bloggfærslu út af fyrir sig mun seint líða mér úr minni. Önnur skordýr hafa nú haldið sig utandyra að frátaldri einni kónguló sem tók sér bólfestu á handklæðinu mínu um daginn. Hún fékk nú bara að fara út aftur á stétt. Snigla hef ég séð þónokkra og svo bara svona klassískar margfætlur, hrossaflugur, mýflugur, venjulegar flugur og þá held ég að það sé upptalið.
Það sem kom mér þó mest á óvart hérna, en ef ég hefði staldrað við og hugsað eilítið hefði ég getað sagt mér það sjálf, er hvað fuglalífið hér í bænum er mikið og fjölbreytt. Ég hugsa oft um Fuglabók Fjölva sem ég held að bróðir minn hafi fengið fermingargjöf og ekki enn fundið not fyrir. Ég ætla að láta hann taka hana með sér þegar hann kemur í heimsókn... eða hvort það var Fiskabók Fjölva... hún var alla vega frá Fjölva, það er á hreinu! Eníhú... hér er a.m.k. mikið af fuglum og líkt og hundarnir eru þeir líka ansi háværir. Það fer nú samt mest fyrir helvítis mávaógeðunum sem garga alltaf eins og verið sé að murrka úr þeim lífið. Þeir vöktu mig t.d. í morgun þar sem þeir voru að rífast og slást yfir ruslapoka sem hafði opnast og þeir voru búnir að dreifa innihaldinu út um allt. Þeir eru ekki í miklu uppáhaldi húsfreyjunnar á Snípuvegi! Það eru reyndar líka litlir krúttlegir fuglar inn á milli mávanna en einhvern veginn týnast þeir í frekju og yfirgangi mávanna. Ég óska hér með eftir fuglasérfræðingi í heimsókn til að kenna mér að þekkja þetta allt í sundur. Hann mun fá frítt húsnæði og jafnvel serjós í morgunmat ef hann stendur sig vel.
Já og svo hef ég líka séð nokkra ketti. Ekkert um þá að segja!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Mánudagur, 14. ágúst 2006
Helgin
Föstudagur
Sinnti mínum skildum í vinnunni til rúmlega fjögur. Eftir það fór ég ásamt tveimur vinnufélögum af þremur á Cafe Natur til að drekka bjór. Það endaði auðvitað í nokkrum bjórum, gini, hot shot og alls konar vitleysu. Reyndar fékk ég á þessum stað nokkuð sem átti að vera tvöfaldur gin í tonic en mig grunar að þetta hafi verið tvöfaldur gin í vatni. Þetta var alla vega hreinasti viðbjóður!! En eins og sannri drykkjukonu sæmir svolgraði ég þessu auðvitað í mig og var fegnust þegar glasið var búið. Við röltum svo yfir á englabarinn en það var einum of rólegur staður fyrir okkur en það góða var að við fengum alla vega almennilegt gin þarna. Manhattan var svo pleisið fyrir okkur þetta kvöld. Eftir nokkra drykki í viðbót fóru tveir gaurar að spila og þeir voru alveg geggjaðir! Ég var alveg komin í söngfílingin og hefði alveg eins getað verið þarna ein, því ég varð svo mikið að syngja með að ég mátti ekkert vera að því að tala við félaga mína. Ég fékk það svo á heilann að ég yrði að heyra Pianoman og nöldraði í gaurunum þangað til þeir létu undan. Já og svo tóku þeir Bubba á færeysku. Hehehe það var algjör snilld. Man ekki hvað lagið heitir en það byrjar svona: "ég hef staðið við gluggann, heyrt hann tala..." Eftir nokkrar söngsyrpur fórum við niður í kjallara en þar var alvöru hljómsveit að spila. Þeir voru líka alveg magnaðir... ég naut þess aðallega að sitja bara og hlusta á þá. Randi skellti sér á dansgólfið en ég lét það nú að mestu vera... tók smá snúning svona undir lokin. Um þrjúleytið var ég búin að fá nóg, fór út og fékk mér franska pylsu og tók leigubíl heim. Þetta var sko alvöru leigubíll því ég fékk að hlusta á upplestur úr Biblíunni alla leiðina heim! Ekkert rokk í þessum bíl sko....
Myndir frá kvöldinu komnar inn :)
Laugardagur
Þessi dagur fór í þynnku. Fékk reyndar hringingu frá Randi þar sem hún var að reyna að plata mig út aftur en ég ákvað að vera bara heima.
Sunnudagur
Vaknaði um hádegi. Ákvað að liggja ekki bara í myglunni heima og dreif mig því í göngutúr. Það var að sjálfsögðu mjög hressandi eins og göngutúrum er ætlað að vera. Tók nokkrar myndir sem ég er búin að setja í myndaalbúmið "Sunnudagsgöngutúr" Stefnan var svo tekin á vinnunna þar sem ég kíkti aðeins á netið og hringdi í Siffu. Þegar ég kom heim tók ég skrans á bakaraofninum og er hann núna orðinn agalega fínn. :)
Mér hafa alltaf fundist sunnudagar frekar leiðinlegir dagar og þessi dagur er engin undantekning. Einhvern veginn ekkert að gera og það eina sem bíður manns er ný vinnuvika. Ekki það að það sé ekki gaman í vinnunni, bara einhvern veginn...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 12. ágúst 2006
Til hamingju með daginn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 11. ágúst 2006
Moppujúnitið
Í dag lærði ég að maður á aldrei að segja fyrirfram um hvað maður ætlar að skrifa næst. Núna til dæmis er ég ekki í neinu stuði til að segja ykkur frá nýjastu heimilisgræjunni sem er moppujúnitið. En ég á ekki annarra kosta völ þar sem ég var búin að segjast ætla að skrifa um þessa græju:
Ég var búin að leita all lengi að einhverju til að skúra gólfin með. Ég var farin að efast all verulega um það að Færeyingar þrifu yfirhöfuð gólf sín þar sem ég sá hvorki sóp né skrúbb nokkurs konar. Ég endaði svo á því að spyrja samstarfsfélagi mína með hverju þau þrifu eiginlega gólfin. Þau horfðu á mig í forundran og hváðu: "Varstu ekki að kaupa ryksugu?" Jújú ég kvað svo vera en stundum notaði ég vatn og sápu, alla vega þegar von væri á gestum og svona rétt fyrir jólin. Þau tjáðu mér þá að það héti "skrúbba" sem ég ákvað að væri skrúbbur svona eins og mamma skúrar alltaf með. Svona með lausri tusku og svoleiðis. En þar sem ég er nútímakona þá ég hef vanist á það á mínu heimili að nota moppu með áfastri tusku.
Eftir þessar upplýsingar frá samstarfsfólki mínu áleit ég því að ég yrði að hverfa aftur til fortíðar og gera eins og mamma. Vinda tuskuna með gúmmíhönskunum og berjast svo við það að hún kuðlaðist ekki saman undir skrúbbinum. En Mikligarður kom til bjargar! Það er svona stór og flott matvörubúð sem selur samt líka ýmislegt annað, eins og geisladiska og glös og alls konar annað dót. Ekki alveg jafn mikið úrval og í Hagkaup en nokkuð gott hjá þessum færeysku samt. Þar leit ég skyndilega alveg snilldarlausn í þrifum á gólfum. Þarna var saman komið eitt stykki moppa með stillanlegri lengd á handfanginu, fata og svona dót sem maður setur á fötunum og setur svo mopputuskuna ofan og ýtir og þá þarf maður ekki að vinda neitt! Þetta er nú meira segja skrefi framar heldur en græjan sem ég á heima á Boðagrandanum því þar þarf ég alltaf að vinda mopputuskuna. Þannig nú getur maður skúrað með blautt naglalakk! Að venju fylgja með myndir til frekari útskýringa.
Annars HATA ég að skúra!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Fimmtudagur, 10. ágúst 2006
Skömmustutilfinning og ryksuga
Ég skammast mín nú fyrir að vera ekki búin að láta heyra í mér svona lengi. Ég er ekki komin með nettengingu heim og hef ekki haft tíma til að slæpast í vinnunni. En í dag réð ég bót á því og keypti USB lykil svo ég geti skrifað heima en hent blogginu inn í vinnunni. Jájá maður deyr ekki ráðalaus!
Það er nú reyndar ekki mikið sem á daga mína hefur drifið eftir hetjulega baráttu mína við skrímslið, ég hef í mesta lagi þurft að henda út einni og einni kónguló og eftir hina svaðilförina tekur því ekki að nefna slíkt smáræði.
Dagarnir hafa u.þ.b. verið á eftirfarandi hátt:
- Vakna við óþolandi hljóðið í vekjaraklukkunni (eftir nokkur snús að sjálfsögðu)
- Sturta og almenn útlitstiltekt
- Vinna
- Fara í búðina (misjafnt hvaða tilgangi innkaupin þjóna)
- Lesa, leggja kapal í tölvunni, hekla, þrífa (fer eftir skapi hvern dag)
- Sofa
Ótrúlega spennandi ekki satt? Þetta er samt voða þægilegt og ótrúlegt hvað manni dettur í huga að gera þegar maður ætti að vera að læra. Einföldustu heimilisverk verða ótrúlega spennandi þegar yfir manni vofir að þurfa að fara að læra. Og þar sem ég er svo upptekin af heimilisverkunum langar mig að kynna til sögunnar næst nýjasta heimilistækið en það er ryksugan mín. Taarraaaa!!
Hana keypti ég af dönskum gaur sem var jafn lélegur í færeysku og ég, þannig að ég var ótrúlega sátt við að tala við hann ensku. Við ræddum dálitla stund um það hvernig húsnæði ég væri að fara að ryksuga og ég tjáði honum að þetta væru ca. 100 fermetra íbúð. Hann vildi þá vita hvort það væri mikið um teppi en ég kvað svo ekki vera. Ég var ekki að tíma að eyða miklum pening í þetta apparat og var því ægilega glöð þegar ég komst af (miðað við þessar upplýsingar sem ég gaf danska manninum) með ódýrustu ryksuguna. Ég fór því heim alsæl með nýja gripinn og ég var sko alveg búin að gleyma hvað það er gaman að ryksuga! Maður bara setur stútinn yfir eitthvað drasl á gólfinu og það bara hverfur! Engin fægiskófla og ekkert vesen! Ég spái því nú samt að nýjabrumið fari fljótt af þessu undratæki þegar ég minnist þess að ég átti alltaf að ryksuga upp fjaðrir og korn sem páfagaukurinn minn dreifði út um allt herbergið mitt þegar ég var ung. Ég var ekkert svo dugleg við það, móður minni til mikillar armæðu. Ég vil þó meina það að áhuginn á ryksugun hafi ekki verið meiri hjá mér vegna þess að hún átti (og á reyndar enn) svo stóra og ljóta ryksugu. Mín ryksuga er falleg og nett!
En víkjum þá aðeins að leiðbeiningunum sem fylgdu tækinu. Það var sko eins gott að ég las þær... annars hefði ég örugglega aldrei getað klórað mig fram úr virkni tækisins. Í fyrsta lagi er manni sagt hvernig eigi að setja saman alla hlutina en það hefði ég nú aldrei fattað án leiðbeininganna. Það eru sko tvær stillingar á hausnum, ein ef maður er að ryksuga gólf og önnur ef maður er að ryksuga teppi. Svo fylgir með annað stykki sem maður setur á ef maður er t.d. að ryksuga húsgögn eða bækur. Sniðugt! Það sem mér fannst samt aðalfúttið er að maður getur stillt ryksugunni upp á tvo vegu: Annars vegar þegar maður setur hana á geymslustaðinn og hins vegar þegar maður er að ryksuga en þarf t.d. að færa stól eða eitthvað, þá getur maður krækt hausnum á ryksuguna sjálfa og þannig stendur rörið og allt bara uppi! Þetta finnst mér ótrúlega sniðugt þar sem maður er svo oft að ryksuga og þarf að færa eitthvað og það er svo ótrúlega pirrandi að maður veit aldrei hvað maður á að gera við rörið og það. Yfirleitt reynir maður að stilla því upp við vegg en það dettur næstum því alltaf með skellum í gólfið. Þess vegna finnst mér þetta svo sniðugt! Ég læt fylgja með myndir af tækinu góða, bæði í geymslustellingunni og í stellingunni sem maður setur það í ef maður þarf að færa stól.
Næsta færsla verður um moppujúnitið sem ég keypti!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Sunnudagur, 6. ágúst 2006
Pöddusérfræðingar
Jæja nú er ég komin með myndir af skrímslinu ógurlega. Þeir sem þekkja helvítið eru beðnir um að gefa sig fram og ausa úr viskubrunni sínum inni á athugasemdum.
Svo áhugasamir viti nú hvernig örlögum þessa viðbjóðs var háttað þá vonaðist ég bara til að hann myndi drepast undir glasinu... en nei þetta var lífsseigt helvíti og það var ekki fyrr en ég sprautaði á hann hárlakki sem þetta drapst. Það var agalegt að horfa upp á kvikindið engjast um eftir árás mína en það skrýtna var að ég fann til engrar vorkunnar... ég ætti kannski að ganga í al-Qaida þar sem ég virðist vera algjörlega samviskulaus þegar kemur að því að deyða pöddur. Þannig að ég þyrfti bara að fara að líta á mannfólkið sem pöddur og voilà... hinn fullkomni hryðjuverkamaður! Líkið fór svo í ruslafötuna!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sunnudagur, 6. ágúst 2006
Ein og yfirgefin (sunnudagur 30.07.2006)
Ég vaknaði um hálfþrjú. Heiðdís var auðvitað örugglega löngu vöknuð eða hún var alla vega farin eitthvert. Ég sturtaði mig og ákvað svo að labba niður í bæ. Í dag leit allt, allt öðruvísi út. Ekki eins margir á ferli og viti menn... sól og blíða. Ég sá loksins almennilega hvernig allt lítur út hérna. Ekki varð ég fyrir vonbrigðum með það sem fyrir augu bar. Gömul ferlega krúttleg hús, höfnin alveg ferlega sjarmerandi og mér leið eins og ég væri stödd inn í ljósmynd af Reykjavík í kringum 1950. Mikið af torfþökum, fyllibyttur við höfnina og allt lokað eins og vera ber á sunnudögum. Ég naut þess að labba í sólinni og fór í góðan göngutúr. Ég á samt nokkuð í land með að vita hvert ég á að fara þar sem ég er nú ekki sú ratvísasta í heiminum en þess vegna er það gott fyrir mig að vera á svona litlum stað, þetta er ekkert ofboðslega flókið. En kortið verður samt ekki tekið úr töskunni alveg strax, það er alveg á hreinu! Fór svo á bensínstöðina og keypti í matinn og kom svo heim að blogga. Á morgun er ég svo að fara að hitta vinnufélagana og ég þarf að biðja Jákup um að græja ýmislegt fyrir mig og er þar efst á lista nettenging heim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 6. ágúst 2006
Annar í Ólafsvöku (laugardagurinn 29.07.2006)
Ég svaf eins og ungabarn til tvö... alveg búin á því eftir stress síðustu vikna og allt of litlum svefni. Og viti menn... ég opna hurðina á herberginu og það fyrsta sem ég sé er maðurinn að sækja eitthvað dót :O) Mér brá svo að ég hrökklaðist aftur inn í herbergi og beið þangað til hann var farinn. Heiðdís var þá vöknuð og hafði hleypt honum inn. Eftir sturtu fórum við svo að leita að bensínstöð til að við gætum keypt klósettpappír fyrir þynnkudrulluna og eitthvað að borða. Bensínstöðin fannst og við komum heim klyfjaðar af óhollustu og pappírnum góða. Við fórum svo í bæinn með Sillu og okkur tókst að lenda á tveimur trúarsamkomum á hálftíma!! Þetta er út um allt!! Við stöldruðum þó ekki lengi við, þar sem við þurftum alltaf að hlægja svo mikið.
Stelpurnar voru í kastinu því ég var alltaf að hitta einhvern sem ég þekkti. Ég hitti Magga frænda og Siggu frænku, alla Íslendingana sem höfðu verið með mér í leigubílnum og gamlan skólabróður. Við settumst svo inn á bar, fengum okkur í glas og ræddum mál hjartans í nokkra klukkutíma. Þegar við vorum að fara fékk Silla yfir sig heilan bjór sem einhver gaur ætlaði að skvetta á einhvern annan gaur en hitti ekki betur en svo að Silla fékk allt á sig. Hún angaði auðvitað eins og versti róni en við höfðum sem betur fer verið á leið heim að skipta um föt og græja okkur fyrir kvöldið. Kvöldmaturinn var frönsk pylsa, mjög ljúffeng.
Eftir skveringu og drykkju vorum við tilbúnar til að skella okkur aftur í fjörið. Við byrjuðum á því að taka þátt í fjöldasöng sem lætur Árna Jónsen og brekkusönginn virka sem pínulítið gítarpartý. Þetta var alveg geggjað. Það voru sungin 18 lög og það var ekkert mál að syngja með þótt við þekktum ekkert lagið nema tvö. Bara svona týpískir slagarar. Okkur fannst reyndar bjánalegt að það vantaði alveg öll fagnaðarlæti eftir hvert lag... allir stóðu bara og biðu eftir næsta lagi. Að þessu loknu tóku svo allir höndum saman og dönsuðu Vikivaka um allt. Það var ekki hægt að kalla þetta hringdans þar sem hringurinn liðaðist bara um allt svæðið. Tvö skref til vinstri og eitt til hægri.... ossalega skemmtilegt.
Ég, Silla og Heiðdís fórum svo á einhvern bar þar sem ég spjallaði aðeins við dverg, sem var svona frekar spúkí. Jájá litli maðurinn er líka í Færeyjum.... Silla yfirgaf samkvæmið á þessu stigi en við Heiðdís skelltum okkur á Rex (já líka til hérna) þar sem einhver hljómsveit var að spila og við vorum einu manneskjurnar sem dönsuðum ekki í haldi. Við höfðum nú auðvitað lúmskt gaman að því að dansa eins og fífl innan um öll pörin sem höfðu greinilega farið á nokkur dansnámskeið eða lært að dansa hjá afa. Eftir ball var það pizzasneið á Pizza 67 og svo löbbuðum við heim í grenjandi rigningu. Við vorum alveg gegndrepa þegar við komum heim en þetta var samt voða hressandi og notalegt. Burstuðum tennurnar og lögðumst til svefns.
Veður: rigning og þoka
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 6. ágúst 2006
Fyrsti dagur í Þórshöfn (föstudagurinn 28.07.2006)
Jæja þá er skvísan lent í Þórshöfn. Ég sé það að til að byrja með mun þetta blogg vera í tannburstunar- og máltíðarformi, þar sem allt er svo spennandi og skrýtið. Ég mun reyna að segja skilmerkilega frá og greina frá því sem gerst hefur síðan ég kom í þetta fyndna land.
Ég verð nú að viðurkenna það að ég barðist við tárin í flugvélinni. Fannst svo skrýtið að vera að fara út í eitthvað sem ég vissi ekkert, og veit reyndar ekki enn, hvernig yrði. Þetta var tilfinnig blönduð söknuði, spenningi og hræðslu við að reyna eitthvað nýtt. Ég sofnaði nú samt í flugvélinni og vaknaði rétt áður en ég lenti. Og viti menn... þoka og rigning í Færeyjum! Ég brosti nú með sjálfri mér því þetta var nákvæmlega eins og ég var búin að ímynda mér það, þ.e. veðrið. Það sást ekkert fyrir þoku og allt í einu birtist bara flugbrautin upp úr þokunni. Þegar ég hafði nú fast land undir fótunum fór ég að velta fyrir mér hvernig þetta yrði nú með rútuna. Það var auðleyst þar sem stóð á skilti að næsta rúta færi eftir einn og hálfan tíma. Ekki fannst mér það nú skemmtileg tilhugsun að þurfa að hanga á flugvellinum í þennan tíma. Það voru greinilega fleiri óþolinmóðir Íslendingar þarna og það endaði með því að við vorum sex sem tókum saman leigubíl. Við rétt komumst fyrir með allan farangurinn en það var nú voða gott að hafa þetta fólk með sér, svona til halds og trausts. Ég fór út á Hótel Havnia og hringdi í framkvæmdastjórann sem ætlaði að sækja mig og koma mér einhvers staðar fyrir. En nei... þá var hann bara að fara í bæinn með fjölskyldunni sinni og spurði hvort ég gæti ekki komið dótinu einhvers staðar fyrir og hann myndi hringja í mig á eftir. Ég játti því auðvitað en fékk ekki blíðar móttökur á hótelinu þegar ég spurði hvort ég mætti geyma dótið mitt hjá henni. Þar sem ég var ekki gestur vildi hún ekki geyma dótið fyrir mig. Hún sagði mér að fara niður á höfn þar sem væri farangursgeymsla. Ég varð svo pirruð að ég spurði hana ekki einu sinni hvar höfnin væri eða hvernig væri best að komast þangað, heldur strunsaði bara út með 45 kg í eftirdragi. Þegar ég kom út fór ég nú að skoða kortið en varð litlu nær. Þá komu hjón sem spurðu hvort þau gætu aðstoðað mig. Ég rakti þeim raunir mínar og þau sögðu þá að það væri ekki séns að komast á höfnina þar sem þar væri svo mikið af fólki vegna róðrakeppninnar. Þau bentu mér aftur á móti á annað hótel sem var þarna rétt hjá og ég dröslaðist ... orðin kófsveitt... með hafurtaskið þangað. Stelpan í lobbýinu hefur kannski séð hvað ég var búin á því því hún bauð mér að geyma töskurnar bak við deskið hjá sér. Ég held að ég hafi sjaldan verið eins þakklát... langaði mest að hoppa í fangið á henni og knúsa hana. Ég hélt nú samt aftur af mér.
Nú var þungu fargi af mér létt, bæði andlega og líkamlega. Ég hringdi í Örnu og eftir nokkrar mínútur var ég búin að finna hana, Nonna og Sillu. Það var voða ljúft að sjá kunnugleg andlit og var ég á röltinu með þeim í nokkurn tíma. Við hlustuðum á samkomu hjá hernum sem innihélt mikið af hallelújum og amenum. Það var alltaf verið að bjóða mér sopa af ákavíti en ég get nú ekki sagt að sá drykkur sé í miklu uppáhaldi hjá mér. Heiðdís bættist svo í hópinn en hún hafði komið fljúgandi frá Danmörku.
Það var æðislegt að sjá hvað það voru margir í þjóðbúningnum og gaman að sjá hvað fólk hefur meira val um útlit hans heldur en heima. Konur og karlar og allt niður í litla krakka klæddust þessum glæsilegu búningum og ég var undrandi hvað það eru margir sem eiga svona. Við gengum svo bara um og skoðuðum fólksmergðina þangað til samferðafólk mitt þurfti að fara í matarboð. Ég rölti því ein um þangað til ég hitti tvær stelpur sem voru með mér í leigubílnum. Ég fór og settist með þeim á pöbb þangað til Jákup hringdi og sagðist vera á leiðinni. Hann kom svo og sótti mig og dótið og fór með mig í íbúðina.
Íbúðin er mjög stór og fín. Fyrri leigjendur eru samt ekki alveg fluttir út þannig að ég veit ekki hvað verður skilið eftir eða hvað þau taka. Ég fékk samt vægt taugaáfall nokkrum mínútum eftir að ég kom. Allt í einu stóð blindfullur maður á stofugólfinu. Hann sagði eitthvað á færeysku sem ég skildi ekki en svo skipti hann yfir í ensku og sagðist þurfa að sækja svolítið. Ég fékk það svo upp úr honum að hann væri fyrri leigjandi. Síðan þá er hann búinn að koma tvisvar í viðbót og segir alltaf bara "I have to get something" Hehe en ég er alla vega hætt að vera hrædd við hann. Ég get samt ekki beðið eftir að þau flytji alveg út svo ég geti farið að græja íbúðina eins og ég vil hafa hana. Ég er búin að sjá fullt af búðum með flottum hlutum sem mig langar í.
Um kvöldið fórum við svo aftur í bæinn og vorum bara á almennu flakki. Gengum bara um og skoðuðum fólkið. Heiðdís vann svo forláta uppblásið sverð með því að veiða plastönd og gengdi það sverð stóru hlutverki í fíflalátum kvöldsins. Við vorum samt bara frekar rólegar og vorum komnar heim um þrjúleytið sem þykir nú ekkert sérstök frammistaða á Ólafsvöku.
Veður: rigning og þoka
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 6. ágúst 2006
Betra er seint en aldrei....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)