Færsluflokkur: Bloggar

Fundinn

Er búin að finna leiðindapúkann og eyða honum. Hann hefur verið afpúkaður og lifir nú friðsælu lífi í sátt við menn og dýr.

Afskipt

Ekki þykir mér nú lesendum mínum mjög annt um mig, en þeim hefur nú reyndar fækkað frá því fyrir jól, miðað við að enginn hefur lýst áhyggjum yfir annarlegum leiðindapúka sem skaut skyndilega upp kollinum hér á blogginu mínu. Ekki veit ég af hverju þetta afskiptaleysi stafar nema að í öllum stjörnuspám fyrir árið 2007 hafi staðið "Forðastu að skrifa athugasemdir á bloggsíður vina þinna, það gæti haft alvarlegar afleiðingar." Hver svo sem ástæðan er hef ég ákveðið að berjast bara ein við leiðindapúkann án nokkurs stuðnings vina og fjölskyldu!

Það gerðust þó undur og stórmerki í dag. Færeyjamet var sett í þjónustu við Hugrúnu litlu. Og já... það er enn og aftur blessuð bifreiðin mín. En nú var metið í hina áttina, þ.e.a.s. ég bara brosi allan hringinn í stað þessa að sitja á steini með fýlusvip. Ég fór sem sagt með bílinn í viðgerð kl.13 í dag og það var hringt rúmlega fimm og sagt að hann væri tilbúinn! Tja undrin gerast enn og er ég því komin á skrjóðinn, eilítið klesstan en að minnsta kosti með öll ljós í lagi. Og þarf nú ekki meira til að gleðin hreiðri um sig í mínu litla hjarta.

Þetta ár fer annars bara furðanlega vel af stað. Eldmóðurinn enn til staðar þegar önnur vikan er að verða hálfnuð. Þetta hefur held ég bara ekki gerst áður. Janúar að verða búin og sumarið nálgast óðfluga.  Gleði, gleði!!


Leiðindapúki

Leiðindapúki hefur hafið innreið sína á bloggið mitt. Hann setti leiðindapúkalega athugasemd inn í gestabókina mína. Ég skil ekki fólk sem þarf að vera svona neikvætt, getur það ekki bara haldið skoðunum sínum fyrir sig! Ég er auðvitað líka að velta fyrir mér hver þetta geti verið og það eina sem mér dettur í hug er maðurinn sem keyrði fyrir aftan mig og mömmu þegar við keyrðum á 30 af því að bíllinn var næstum því bremsulaus. Hann hefur samt þurft að hafa mikið fyrir því að hafa upp á mér... ætli að það sé uppljóstrari í lesendahópnum?

Ætli þetta sé einhver í lesendahópnum?

Kannski hitti ég þessa manneskju um jólin?

Ætli hún sé rauðhærð?

Hef bróður minn grunaðan þar sem ég vann hann í Trivial.

Shit eða kannski er þetta einhver sem ég ætlaði að heimsækja en heimsótti ekki. Afi kannski? Nei, afi er nú friðsemdar gaur.

Kannski eru þetta einhver samtök sem þola mig ekki? FAE kannski? FARÐU AÐ EILÍFU. Hef heyrt að þessi samtök einbeiti sér að fólki sem yfirgefur landið og snýr svo aftur. Pælingin er víst að fyrst þú fórst þá hafirðu ekkert að gera heim aftur.

Nei, ég veit það ekki... 

Ég sef samt alveg... held að það sé einhver að gera at í mér. Nema að þetta sé allt saman eitt allsherjar samsæri?


Breyting

Það er mikil pæling á bak við myndavalið á haus síðunnar. Þó manni finnist maður standa í skugganum þarf maður stundum bara að snúa sér við til að koma auga á sólina.


Mætt á svæðið

Komin aftur til Færeyja eftir yndislegt jólafrí á hinni eyjunni minni. Ég naut þess í botn að vera heima svona lengi og var eiginlega ekki tilbúin til að fara út aftur. En svo þegar ég var komin og búin að taka kast yfir því að einhver hafði keyrt utan í bílinn minn, hvað allir væru leiðinlegir ennþá og sofa smá varð lífið bara ágætt eftir allt saman. Ég er sem sagt uppfull af eldmóði að klára þetta verkefni mitt hérna næstu sjö mánuði, vinna eins og brjálæðingur en gleyma samt ekki að njóta lífsins þess á milli. Það verður spennandi að sjá hvað eldurinn endist lengi.

Það stefnir sem sagt allt í það að líf mitt verði frekar tilbreytingarlaust næstu vikur og mánuði og því var ég að velta fyrir mér hvað ég ætti að skrifa um hérna á þessu bloggi mínu. Mér dettur reyndar alltaf eitthvað skemmtilegt í hug rétt áður en ég sofna en er svo að sjálfsögðu búin að gleyma því daginn eftir. Hef velt fyrir mér hvort ég eigi að skrifa tilfinningadagbók, en þá fyrst myndu nú allir gefast upp á mér, ég er nefninlega mjög leiðinleg inni við beinið en get verið skemmtileg svona út á við. Ég hef líka verið að spá í að skrifa um málefni líðandi stundar, velja eitthvað af mbl.is eða dimma.fo og koma með djúpar pælingar en komst svo að því að ég nenni yfirleitt ekki að hugsa mjög djúpt, enda er ég alltaf með kúta á handleggjunum og kemst því ekki undir yfirborðið. Hef líka spáð í svona listabloggi þar sem ég skrifa sögur eða ljóð eða bara samhengislausan texta með fínum orðum. Held ekki. Gera grín að fólki? Hmmm það getur verið hættulegt. Ég get líka þóst eiga barn og farið að skrifa eins og það sé að skrifa sjálft. "Í dag ældi ég yfir mömmu." Það má líka vera með svona dularfullt blogg þar sem talað er í kringum hlutina mjög almennt og kannski bara ein manneskja veit hvað maður er að tala um.  Tja þetta verður spennandi... kannski verður það bara sitt lítið af hverju eða bara sama gamla röflið. Spurning um að taka bara Bibbu á Brávallagötunni á þetta og verða algjör tsjélling, skrifa um blúndur og löbera (sem minnir mig á það að ég hef bara einu sinni tekið fram hekludótið hérna). Bibba var reyndar töffari, ég er nú reyndar ekki góð í því. Enda væri nú meira við hæfi að taka Turillu en Bibbu fyrst ég er farin að hugsa um karaktera hjá Eddu Björgvins. Nú er ég til dæmis búin að skrifa helling um ekki neitt og er því að spá í að fara sofa og láta mér detta eitthvað sniðugt í hug í svefnrofunum svo ég geti gleymt því aftur.

Lifi rigningin!!


Jólafrí

Jæja nú fer bloggið í jólafrí. Ég lofa alla vega engum færslum fyrr en ég verð komin aftur í menninguna hérna í Færeyjum, sem verður 3.janúar. Þetta var nú orðið frekar lélegt hjá mér en ég stefni á að koma fersk inn á nýju ári  W00t

Nú bið ég bara um logn og enga þoku eða ís á föstudaginn um hádegisbilið bæði hér og á Íslandi svo flugvélin geti lent með mig innanborðs. Er orðin mjög spennt að komast heim og njóta lífsins yfir jólin.

Mig langar því til að óska öllum gleðilegra jóla og gleði og hamingju á nýju ári!! vííííííí....


Og enn af bílskrjóðnum

Það er nú ekki öll vitleysan eins! Fór með bílinn á verkstæði nr. 2 í gær. Þeir hringdu svo síðar um daginn og sögðu mér að ég yrði að kaupa nýjan mótor í afturþurrkuna. Hmmm já en það eru ljósin sem eru biluð... þurrkan hefur ekki virkað í mörg ár. Ég hringdi í ofboði í pabba áður en þeir færu að panta nýjan mótor fyrir 45.000 kr. Pabbi sagði þetta hljóta að vera eitthvað rugl í þeim. Þeir voru svo búnir að loka þegar ég ætlaði að láta Bartal hringja í þá aftur en svo hringdu þeir aftur í dag og sögðu að bíllinn væri tilbúinn. Haaa??? Ég fór svo og sótti skrjóðinn en þá þurftu þeir samt að panta eitthvað dót... einhverjar þéttingar held ég... þannig að ljósin virkuðu að fyrstu holunni og svo var ballið búið. Þannig að ég varð fyrst ýkt glöð yfir að bíllinn væri farinn að virka, svo ýkt leið yfir að ég hann væri ekki í lagi og svo bara komst ég að því að það væri nú bara hressandi að labba dáldið meira í rigningunni og þegar ég verð búin að skrifa þetta mun ég ekki hugsa um þetta meira fyrr en varahlutirnir eru komnir  Smile

Annars er ég bara að bíða eftir að komast heim um jólin. Það mun verða fullkomin blanda af djammi, rólegheitum, konfekti og samverustundum með vinum og vandamönnum. Verður brjálað að gera í vinnunni þangað til en það er líka bara gott mál.

Svo langar mig hér með að skora á hana Láru mína að senda mér eitthvað skemmtilegt til að setja hérna inn. Mér finnst mjög gaman að fá færslur frá öðru fólki svona til að krydda þetta aðeins.


Djonní kass

Í dagatalinu var mynd af jólasveini að labba í átt að húsi með skorsteini.

Maður er ekki jafn mikil pæja að labba í takt með Johnny Cash í eyrunum. Samt meiri fjölbreytni í bítinu sem veldur misjöfnum gönguhraða.


Dagatal, bíll, pæjuskapur og bingóvinningur

Í dag er 5.desember... í myndadagatalinu sem ég keypti af einhverjum aumingjans manni sem stóð skyndilega inni á gólfi hjá mér, þar sem hann bankaði ekki frekar en aðrir Færeyingar, var eitthvað sem minnti mest á arfa með rauðri slaufu. Dagatalið er líka síðan fyrra, bara búið að líma yfir fimmið og skrifa sex í staðinn með kúlupenna. Kannski var sölumaðurinn bara fullur allan desember í fyrra og er að nota dagatalið til að fjármagna fylleríið þetta árið.

Bíllinn minn er kominn af verkstæðinu, ekki í lagi en ég er búin að fá hann aftur. Komin með nýja sílendra í allar læsingar og allt. Næsti viðgerðatími á öðru verkstæði er 11.desember. Fæ hann kannski þaðan í febrúar ef ég er heppin. Verkstæðið sem er búin að liggja á honum í rúman mánuð þurfti samt að gefa honum start áður en ég gat keyrt kaggann af planinu hjá þeim, höfðu gleymt að slökkva á ljósunum. Já og svo hljóp ég inn með lykla af einhverjum öðrum bíl sem lágu á mælaborðinu áður en ég fór. Ég brosti samt til mannsins sem ég afhenti lyklana. Það var hálfgert vorkunnarbros... nei, ég meina samúðarbros. Þetta eru eintómir snillingar!

Þegar ég er að labba heim úr vinnunni í kolniðamyrkri með KT Tunstall í eyrunum og labba í takt við tónlistina í háhæluðu stígvélunum mínum og jafnvel í pilsi ef þannig liggur á mér finnst mér ég algjör pæja. Veit ekki af hverju, það er bara einhver stemming í því. Hef samt líka komist að því af hverju svona margir gemsar eru með vasaljósi. Í útlöndum eru ekki allir göngustígar upplýstir eins og heima. Ég fer því oftast lengri leið. Kona er ekki lengur pæja ef hún dettur.

Samtökin 78 eru með jólabingó. Í verðlaun eru ferð fyrir tvo til Færeyja með gistingu. Mér finnst það fyndið. Þeir sem ekki hafa fylgst með verða að vita að það eru búnir að liggja undirskriftalistar út um allar eyjar til að mótmæla frumvarpi um lög sem segja að ekki megi mismuna fólki eftir kynhneigð. Þeir óttast að ef það verði samþykkt að þá verði bara að samþykkja staðfesta sambúð samkynhneigðra næst eða eitthvað annað enn hræðilegra. Ýmsir pólítikusar mæta í sjónvarpið og nefna samkynhneigða aldrei neitt annað en kynvillinga. Þeir geta ekki einu sinni notað hlutlausara orð. Ég ætla nú samt ekki að æsa mig meira yfir þessu, hef bara samúð með þessum aðilum. Hitt er svo annað mál að mér finnst samt fyndið að samtökin séu með þessi verðlaun í bingóinu, gistingin er líka á hóteli sem útvegaði pörum sitthvort herbergið ef þau voru ekki gift... og það er ekkert svo ofboðslega langt síðan.

Bara 17 dagar þangað ég kem heim! 

 


Eitt af uppáhalds...

færeysku orðunum mínum!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband