Laugardagur, 5. ágúst 2006
Rigning
Bærinn er alveg tómur þessa helgina. Allir á hátíð í Klakksvík. Hefði sko alveg verið til í að fara en ákvað að taka skynsemina á þetta og vera heima að læra. Er reyndar ekki byrjuð ennþá þar sem mér tekst nú alltaf að finna mér eitthvað annað að gera... eins og að fara og kaupa sigti og pizzaskera eða hanga í vinnunni á netinu!
Fór í gær eftir vinnu með einum vinnufélaga í bæinn að drekka smá bjór, svona nokkurn veginn föstudagshittingur... bara aðeins færri en í gömlu vinnunni Það var rosa fínt og ég lærði nokkur færeysk orð til viðbótar. Kom svo bara heim og sat og beið eftir að klukkan yrði háttatími því ég nennti ekki að fara að gera eitthvað gáfulegt. Alveg ótrúlegt hvað maður er háður afþreyingu eins og sjónvarpi og netinu. Ég er bara ónýt án þessara hluta. Já, ég veit... maður getur líka lesið, tekið til, þrifið, heklað og margt annað en stundum langar mig bara að slökkva á heilastarfsseminni og hanga fyrir framan imbann.
Komst líka að því í dag að ég er haldin valkvíða hvað varðar innanastokksmuni til heimilisins. Ég er oft búin að sjá eitthvað sem ég gæti hugsað mér en fer svo alltaf að velta fyrir mér hvort þetta sé virkilega það sem mig langar í og hvort ég muni ekki verða leið á þessu eftir tvo daga. Ég gat ekki einu sinni ákveðið hvort mig langaði í hvítar eða dökkbrúnar kaffikrúsir svo ég keypti bara báða litina Held að þetta sé blanda af því að eiga ekki skítnógan pening, og því skipti engu máli hvort ég fái leið á kommóðunni eftir tvo mánuði, og því að vita almennt ekki hvað ég vil yfirhöfuð. Ég veit það reyndar alveg stundum en það fjölgar eiginlega skiptunum sem ég veit það ekki. Ég sem hélt að sjálfstæðið ætti að aukast með árunum? Ekki það að hafi verulegar áhyggjur af því að eiga í erfiðleikum með að velja hnífapör en ég held samt að það sé gott að vera meðvitaður um þetta svo þetta fari ekki að færast yfir á aðra hluti lífsins... eins og hvort maður eigi að fara í skóla eða ekki, skipta um vinnu eða ekki og þar fram eftir götunum. Passa sig á að snjóboltinn stækki ekki!
Orð dagsins: Möggur = mæðgur
Veður dagsins: Rigning
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 3. ágúst 2006
Alla vega tvær vikur....
þangað til ég fæ netið heim En ég get nú kannski komið hingað af og til hingað til að bulla eitthvað fyrir þá sem nenna að lesa þetta!
Var annars á rúntinu á gulu hættunni.... engin smá athygli sem þessi bíll fær... lítil hætta á að það verði keyrt á mann alla vegana.
En ég verð að þjóta að kaupa diska
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 3. ágúst 2006
Óbjóður og helvítis hundkvikindi
Ég þoli ekki pöddur og hunda sem gelta á nóttunni!! Ég lagðist í mesta sakleysi mínu til svefns í gær og reyndi eins og ég gat að sofna... En eins og svo oft áður var hugurinn á fullu að velta sér upp úr mismerkilegum hlutum
Allt í einu heyri ég eitthvað krafs. Þetta hljómaði dálítið eins og það væri lítil mús í horninu hjá rúminu mínu en þótt ég hreyfði mig heyrðist hljóðið alltaf áfram. Því ákvað ég að þetta væri ekki mús þar sem þær eru nú þekktar fyrir að vera hvumpnar. Ég tók því á honum stóra mínum eftir að hafa legið skjálfandi í rúminu í nokkrar mínútur og fór fram úr og kveikti ljósið. Og martröðin mín rættist! Í horninu lá einhver sú stærsta bjalla sem ég hef nokkurn tíma séð... eða ég veit ekkert hvað þetta var... svona fimmfaldur járnsmiður. Helvítið hafði þá lent á bakinu og til marks um stærðina heyrðist krafsið þegar kvikindið var að reyna að finna fótfestu að nýju. Ég fékk ógeðishroll, fór fram og náði í glas og setti yfir óbjóðinn. Ég þorði svo ekki að gera neitt meira og skildi glasið bara eftir yfir skrímslinu í. Lagðist svo aftur til svefns og sá fyrir mér að kvikindið myndi kalla á hjálp og eftir smá tíma myndi pödduherinn koma til að bjarga félaga sínum og ég myndi missa vitið
Og það var ekki allt búið enn... eftir háskalega föngun á skrímslinu byrjaði einhver helvítis hundur að gelta! Hann gelti alltaf bara einu sinni og lét svo líða 10-15 sekúndur á milli gelta. Bara svona til að mér myndi bregða í hvert skipti. Ég var alltaf að bíða eftir því að samviskusamur eigandi kæmi og segði helvítinu að þegja en íbúarnir sváfu á sínu græna og enginn skipti sér af hundinum. Kannski er þetta bara hluti af umhverfishljóðunum hér í Þórshöfn... hver veit?? Bara svona eins og ýlfrið í vindinum?? Ég ætla að minnsta kosti að sparka í þennan hund næst þegar ég rekst á hann... verst að ég veit ekki hvaða hundur þetta er... þannig að ég mun bara sparka í alla hunda sem ég rekst á til öryggis!!
Er þess vegna frekar úldin í dag og er þar að auki með hælsæri þar sem ég ákvað að það væri rosalega sniðugt að fara berfætt í skónum. Stundum er maður bara hálfviti!
Ég er annars enn að bíða eftir tengingunni heim og að bíða eftir að konan sem á íbúðina komi og máli og að bíða eftir því að ég kunni færeysku. Bíða eftir því að vera búin að koma íbúðinni í stand, bíða eftir að prófið verði búið en mest er ég auðvitað að bíða eftir því að hún Lára mín komi til mín!! Það verður sko ekki leiðinlegt hjá okkur systrum. Ég er sko búin að panta borð fyrir okkur á Toscana en þangað ætlum við á afmælisdaginn minn! Annað verður skilið eftir opið!
Leiter!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 1. ágúst 2006
Allt að gerast
Jæja nú er bara allt á fullu að koma sér fyrir. Er búin að mæta til vinnu og er bara að bíða eftir að tengjast almennilega. Vona að ég fái tengingu sem fyrst svo ég geti hent inn Ólafsvökusögunum Annars líður mér bara ágætlega... skil ennþá bara sumt og er sjálf algjörlega mállaus. En ég er nú í æfingu með að brosa bara og kinka kolli.
Í dag er planið að fara í myndatöku til að setja á netið hérna í Færeyjum og svei mér þá ef ég ætla ekki að senda þá mynd til Reykjavíkur og láta breyta um mynd heima... held það sé alveg kominn tími á það. Svo ætla ég að fara að kaupa dót í eldhúsið og fullt af sápum til að þrífa almennilega. Þá get ég alla vega komið eldhúsinu í stand.
En ég ætla nú ekki að slæpast lengur. Vildi bara láta vita af mér.
Sakna ykkar allra pínulítið en veit af fenginni reynslu að það á eftir að versna!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 26. júlí 2006
Magapína, svitaköst og hné sem gefa sig
Fyrsta bloggfærslan hefur litið dagsins ljós. Hélt ég myndi aldrei gera þetta en svona breytast nú hlutirnir stundum. Ætla ekki að lofa neinu um tíðni færslna, þær verða kannski fáar en svo mun ég kannski missa mig í skrifunum. Ég veit heldur ekki hvert verður megininnihald þessa bloggs... hvort þetta verði um tannburstanir og máltíðir, hugsanir og pælingar eða bara eitthvað allt annað. Eitt er víst að ég mun skrifa um veru mína í Færeyjum og því sem þar fyrir augu og eyru ber.
Við erum að tala um það að ég er að fara ekki á morgun heldur hinn!! Það er nú allt að verða tilbúið hér heima, íbúðin að verða komin í horf og ég á bara eftir að henda tuskunum ofan í tösku. Síðasti vinnudagurinn er á morgun og eru það blendnar tilfinningar sem fylgja því. Það er auðvitað alltaf erfitt að fara út fyrir comfort zonið en vitrir menn og konur segja mér að með því þroskist maður og auki víðsýni sína Ég er svona nett stressuð og pínu sorgmædd að vera að fara en um leið spennt og ég veit að þetta er nokkuð sem ég verð að gera. Þetta er auðvitað skrifað í stjörnurnar þar sem ég fór í maganum á mömmu í júní 1976 og því nákvæmlega 30 ár síðan. Þannig að nú fæ ég alla vega að sjá eitthvað
En ég mun nú hefja vistina á að taka ærlega á því á Ólafsvöku sem er víst ekki leiðinlegt. Vona bara að ég mun rata heim á Mýrisnípuveg 38. Eigum við að taka nokkur hehehe á það?? Held að ég fari bara í hláturgöngutúr að lesa skilti ef mér leiðist. Ég hef reyndar engar áhyggjur af leiðindum... held að það verði meira en nóg að gera í vinnunni. Ég hlakka nú samt mest til að fá kannski að fara í gulu treyjuna í kynningarskyni fyrir vinnuna Svo á ég líka forláta lundabol sem ég mun klæðast hvenær sem tækifæri gefst... Ég mun alla vega setja nýjan tískustandard á eyjunum, það er alveg ljóst.
Næst á dagskrá er svo að læra að setja myndirnar inn svo ég geti bara sett þær inn þegar ég nenni ekki að skrifa neitt.
Þar til síðar....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)